Viðskipti erlent

Apple tekur kvörtun Taylor Swift til greina

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Taylor Swift á sviði í Amsterdam í gærkvöldi.
Taylor Swift á sviði í Amsterdam í gærkvöldi. vísir/getty
Apple hefur látið undan kröfum tónlistarkonunnar Taylor Swift degi eftir að hún birti opið bréf til fyrirtækisins. Í bréfinu sem hún setti á síðu sína í gær hraunar hún yfir Apple fyrir að ætla ekki að greiða tónlistarfólki fyrir spilanir á væntanlegri tónlistarveitu fyrirtækisins.

Apple Music fer í loftið þann 30. júní og er stefnt til höfuðs veitum á borð við Spotify, Tidal og Pandora. Fyrstu þrjá mánuðina verður þjónustan ókeypis og hafði Apple í hyggju að greiða tónlistarmönnum ekki heldur á meðan því tímabili stendur.

„Þetta snýst ekki um mig. Ég hef það ágætt og get séð um mig og fólkið í kringum mig með því að spila á tónleikum. Þetta snýst um alla nýju listamennina sem eru að reyna að fóta sig,“ segir Swift og bætir við að þrír mánuðir sé langur tími til að vera launalaus. „Við biðjum ykkur ekki um fría iPhone. Ekki biðja okkur um að gefa okkar vinnu.



Swift virðist ekki hafa verið eini listamaðurinn sem sendi Apple skeyti vegna málsins því fyrirtækið tók kvartanirnar til greina og ætlar að greiða fyrir tónlistina fyrstu mánuðina.

Í kjölfar fría prufutímabilsins mun Apple bjóða upp á tvær áskriftarleiðir, eina fyrir fjölskyldur og aðra fyrir einstaklinga. Sú síðarnefnda mun kosta tíu dollara á mánuði (1.300 ISK) en sú síðari mun kosta fimmtán dollara (1.967 ISK).

Enn er þó ekki ljóst hvort Swift mun bjóða upp á að plötum sínum verði streymt á veitunni. Hingað til hefur hún ekki viljað hafa plötur sínar á veitum á borð við Spotify og Tidal.


Tengdar fréttir

Stíliseraði Taylor Swift

Edda Guðmundsdóttir var fengin til þess að stílisera poppstjörnuna fyrir tónlistarmyndband.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×