Íslenski boltinn

Farid Zato opnaði markareikninginn sinn hjá Kára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Farid Zato í KR-búningnum.
Farid Zato í KR-búningnum. Vísir/Daníel
Tógómaðurinn Farid Zato er farinn að spila fótbolta á ný en hann hefur spilað tvo síðustu leiki með Kára í 3. deildinni og það er óhætt að segja að Káraliðið byrji vel með hann innanborðs.

Farid Zato opnaði markareikning sinn hjá Kára í 3-1 sigri á Reyni úr Sandgerði í gær en markið hans kom í uppbótartíma. Þetta var annar leikur Farid Zato með Kára en liðið vann 4-0 sigur á Berserkjum í fyrsta leiknum hans með liðinu sem var fyrir rúmri viku síðan.

Farid Zato hefur reyndar fengið gult spjald í báðum leikjunum en leikurinn í gær var sá fyrsti þar sem hann spilar allar 90 mínúturnar.

Markið sem hann skoraði á móti Reyni var hans fyrsta í deildarkeppninni á Íslandi síðan að hann skoraði fyrir Víking úr Ólafsvík í 1-1 jafntefli á móti ÍBV í Eyjum 18. ágúst 2013.

Kári var búið að tapa tveimur leikjum í röð áður en Sigurður Jónsson, þjálfari Kára, setti Farid Zato í byrjunarliðið í fyrsta sinn í sumar.

Farid Zato er að koma til baka eftir erfið meiðsli á fæti en hann gerði starfslokasamning við KR í byrjun maí eftir að hafa komið óleikfær heim frá Tógó.

Farid Zato er á sínu fimmta sumri á Íslandi og hefur nú spilað í fjórum efstu deildunum. Hann spilaði með KR í Pepsi-deildinni í fyrrasumar og með Víkingi úr Ólafsvík í Pepsi-deildinni 2013. Þá spilaði hann með HK í 2. deildinni 2012 og í 1. deildinni 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×