Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - FH 1-4 | Sjáðu þrennuna sem Flóki skoraði í Eyjum

Guðmundur Tómas Sigfússon í Vestmannaeyjum skrifar
FH-ingar sóttu þrjú stig til Vestmannaeyja í blíðunni í dag. Kristján Flóki Finnbogason átti stórleik en hann skoraði þrennu, síðasta markið kom rétt áður en flautað var til leiksloka.

Eyjamenn gerðu tvær breytingar frá tapinu gegn Keflvíkingum um síðustu helgi en þeir Ian Jeffs og Jón Ingason koma út úr liðinu. Tom Even Skogsrud og Bjarni Gunnarsson komu báðir inn í liðið og stóðu sig nokkuð vel.

FH-ingar gerðu einnig tvær breytingar en Atli Guðnason var hvíldur í dag og þá var Sam Hewson ekki í leikmannahópi FH-inga. Inn fyrir þá komu þeir Kristján Flóki Finnbogason, sem gerði þrennu í dag og Eyjamaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson sem var í fyrsta skiptið í byrjunarliði FH-inga.

Upphaf leiksins var drepleiðinlegt en dagskipun Eyjamanna var greinilega að verjast aftarlega og freista þess að fá mörk úr skyndisóknum. Fyrstu mínúturnar vörðust Eyjamenn vel en fyrsta færi FH-inga reyndist dýrmætt. Þar átti Steven Lennon skot að marki sem að Kristján Flóki Finnbogason fylgdi eftir.

Næstu mínútur sóttu FH-ingar mun meira og uppskáru annað mark þegar að hornspyrna Jérémy Serwy bar árangur. Þá stökk Kassim Doumbia manna hæsta eins og svo oft áður og kom boltanum á Steven Lennon sem þakkaði fyrir sig með föstu skoti í fjærhornið.

Stemningin á pöllunum var ágæt í dag en þar stóð Mafían sig vel í því að styðja við bakið á sínum strákum. Eyjamenn voru líka líflegri en oft áður, dómarinn og Þórarinn Ingi Valdimarsson, fengu það oft óþvegið frá vallargestum í dag sem voru 766.

FH-inga virtust ætla að valta yfir Eyjamenn í upphafi seinni hálfleiks en mark Arons Bjarnasonar, kom FH-ingum í opna skjöldu. Hann fékk boltann í dauðafæri eftir skyndisókn ÍBV og frábæra sendingu Bjarna Gunnarssonar sem var sprækur í dag.

Mikill meðbyr var með Eyjamönnum stuttu eftir markið og voru þeir oft á tíðum óánægðir með ákvarðanir dómarans. Leikmenn ÍBV voru allt eins líklegir að jafna metin og FH-ingar voru að bæta við. Gæðin voru þó mun meiri hjá FH-ingum sem gerðu úti um leikinn á 81. mínútu leiksins.

Kristján Flóki Finnbogason gaf þjálfara sínum enn meiri hausverk eftir að hann skoraði annað mark sitt í leiknum þegar hann var snöggur að athafna sig inni í teignum. Hann kom boltanum framhjá Guðjóni og FH-ingar því að sigla sigrinum í höfn.

Enn var þó tími fyrir Kristján Flóka til að fullkomna þrennu sína en hann gerði það gríðarlega vel eftir að hann slapp einn í gegnum vörn ÍBV. Hann lyfti boltanum yfir Guðjón Orra í markinu og skallaði boltann inn með mann í bakinu.

Sigurinn setur FH-inga í toppsæti deildarinnar en Eyjamenn verma botnsætið.

Tryggvi: Helstu ákvarðanirnar alls ekki okkur í hag

„Mér fannst leikurinn góður, við erum nokkuð stoltir af strákunum sem lögðu sig fram,“  sagði Tryggvi Guðmundsson, aðstoðarþjálfari Eyjamanna, eftir stórtap á toppliði FH-inga í blíðunni í Eyjum í dag.

 

„Við vorum allan tímann inni í þessum leik, það er kannski skrýtið að segja þetta af því að leikurinn endar 4-1. Þeir sem að sáu leikinn, þeir vita hvað við erum að tala um. Maður getur sagt að þetta hafi fallið með þeim.“

„Augljós vítaspyrna sem við áttum að fá í fyrri hálfleik í stöðunni 1-0, sem að við fáum ekki. Það er svona hitt og þetta sem að þeir voru ekki alveg með á tæru, þessir grænklæddu. Það er víst partur af þessu.“

Tryggvi Guðmundsson og Jóhannes Þór Harðarson voru báðir áminntir fyrir mótmæli við dómara leiksins í dag, hvað fannst Tryggva um það?

„Við fengum báðir gult og verðum því að haga okkur betur. Maður getur alveg haldið í sér en þegar þetta er orðið í 10-15 skipti þá finnst manni alveg vera kominn tími til þess að láta aðeins í sér heyra.“

„Þessar helstu ákvarðanir voru alls ekki okkur í hag, hvort það var einhver ákveðin virðing fyrir FH-liðinu, eða hvað. Jonathan til dæmis rifinn niður inni í teig án þess að eitthvað sé gert. Einmitt þetta víti skiptir máli. Með því að skora úr vítinu komumst við í 1-1 í staðinn komast þeir í 2-0 stuttu seinna.“

„Menn eru farnir að leggja sig aðeins meira fram. Við höfum verið að stimpla það svoldið inn í strákana. Eins og ég segi er ég mjög ánægður með vinnuframlagið í dag, við mætum hérna góðu FH-liði en við gáfum þeim svo sannarlega leik.“

Kristján Flóki: Gerði bara mitt besta og það skilaði sér

„Við erum búnir að vera að vinna síðustu leiki og það er ekkert hægt að kvarta yfir því að vera ekki í liðinu,“ sagði Kristján Flóki Finnbogason, leikmaður FH, eftir stórleik sinn gegn Eyjamönnum, þar skoraði Flóki þrjú mörk í 4-1 sigri á ÍBV.

„Ég gerði bara mitt besta og það skilaði sér. Við áttum leikinn þegar við komumst í 2-0 en þegar þeir skora komast þeir aðeins inn í leikinn. Vel gert hjá okkur að drepa þetta.“

Mikill æsingur og læti sköpuðust inni á vellinum en Kristján Flóki vildi helst ekki vera nálægt því.

„Ég ákvað að skipta mér ekki að þessu, því ég var kominn með gult. Ég sleppti því bara að vera með í þessu.“

Kristján Flóki skoraði þrjú mörk í leiknum en hann hlýtur að vera stoltur af þeirri frammistöðu.

„Þetta er fyrsti leikurinn á tímabilinu sem að ég get verið ánægður með. Ég hef verið hægur í gang og loksins, vonandi fer þetta að koma.“

Aðspurður hvort hann eigi meira inni segist Kristján Flóki vona það. Hann segist einnig vilja tryggja sér sæti í liðinu en bætti þessu þó við.

„Við erum besta liðið á landinu, að mínu mati og erum með hrikalega öfluga breidd. Það getur alltaf komið maður í manns stað, ég þarf að standa mig á æfingum og í leikjum þegar ég fæ tækifæri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×