Everest, hæsta fjall heims, færðist þrjá sentímetra í suðvesturátt í jarðskjálftanum sem skók Nepal í apríl síðastliðnum.
Skjálftinn, sem var af stærðargráðunni 7.8, hafði þó engin áhrif á hæð fjallsins en Everest gnæfir 8848 metra yfir sjávarmál.
Kínversk stjórnvöld hafa allt frá árinu 2005 fylgst með hreyfingum fjallsins en það hefur að meðaltali færst fjóra sentímetra á ári til norðausturs og hraði þess aukist um 0.3 sentímetra á ári.
Skjálftinn í apríl færði því Everest aftur á þann stað sem það hafði verið 9 mánuðum áður.
Alls létust um 8000 manns í skjálftanum sem reið yfir Nepal þann 25. apríl síðastliðinn.
Tugir fjallgöngumanna á Everest féllu einnig í skjálftanum sem hleypti af stað fjölda snjóflóða á fjallinu. Öllum ferðum á fjallið var aflýst í kjölfarið.
Skjálftinn færði Everest aftur um níu mánuði
Stefán Ó. Jónsson skrifar
