Körfubolti

Margrét Rósa hélt upp á afmælið sitt með sínum besta landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Rósa fékk afmælissöng og rós eftir leik í gær.
Margrét Rósa fékk afmælissöng og rós eftir leik í gær. vísir/facebook
Margrét Rósa Hálfdanardóttir átti flottan leik með íslenska kvennalandsliðinu í gær þegar liðið vann tíu stiga sigur á Möltu, 83-73, í fyrsta leik sínum á Smáþjóðaleikunum sem fara fram á Íslandi þessa dagana.

Margrét Rósa hélt upp á 21. árs afmælið sitt í gær og fagnaði því með því að setja nýtt persónulegt stigamet með íslenska landsliðinu í þessum góða sigri liðsins í Laugardalshöllinni.

Margrét Rósa skoraði tíu í fyrsta sinn í A-landsleik en þau komu öll á síðustu tólf mínútum leiksins og sex þeirra komu á mikilvægum tveggja mínútna kafla í fjórða leikhlutanum. Margrét Rósa gaf einnig þrjár stoðsendingar sem er það mesta sem hún hefur gefið í einum A-landsleik.

Margrét Rósa var ekki sú eina í liðinu sem setti persónuleg met því það gerði einnig miðherjinn Hildur Björg Kjartansdóttir. Hildur var með 14 stig og 8 fráköst í leiknum í gær og bæði voru það persónuleg met hjá henni með A-landsliðinu.

Hildur skoraði líka tvær þriggja stiga körfur sem hún hafði ekki náð áður í leik með landsliðinu. Hún hafði skorað samtals einn þrist í fyrstu níu landsleikjunum sínum.  

Margrét Rósa hafði mest áður skorað 9 stig á móti Gíbraltar á Evrópumóti smáþjóða í fyrrasumar en Hildur hafði mest skorað 13 stig í vináttulandsleik á móti Danmörku í Stykkishólmi í fyrrasumar.

Margrét Rósa og Hildur Björg eru báðar nýkomnar heim frá Bandaríkjunum þar sem að þær stunduðu nám á fyrsta ári í vetur og spiluðu auk þess með körfuboltaliðum skóla sinna sem báðir eru í 1. deild bandaríska háskólaboltans.

 

Hildur Björg spilaði með University of Texas–Pan American, UTPA, sem er í Edinburg í suður Texas-fylki en Margrét Rósa spilaði með Canisius Collage sem er Buffalo í norður New York fylki. Hildur Björg kemur frá Snæfelli þar sem hún varð Íslandsmeistari 2014 en Margrét Rósa er frá Haukum þar sem hún varð meðal annars bikarmeistari 2014.

Það er ekki hægt að segja annað en stelpurnar hafi sýnt fram á framfarir í sínunm fyrsta A-landsleik eftir vistaskiptin yfir Atlantshafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×