Sport

Ísland gæti orðið sigursælasta þjóðin í sögu Smáþjóðaleikanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aníta Hinriksdóttir er búin að vinna gull og brons.
Aníta Hinriksdóttir er búin að vinna gull og brons. vísir/stefán
Eftir fyrstu þrjá keppnisdagana á Smáþjóðaleikunum eru gestgjafar Íslands langefstir á verðlaunatöflunni.

Ísland er búið að vinna 25 gullverðlaun, 33 silfur og 22 brons og er í heildina með 80 verðlaun eftir þrjá daga sem verður að teljast ansi gott.

Lúxemborg kemur næst með 47 verðlaun (21 gull, 13 silfur og 13 brons) og Kýpur er í þriðja sæti með 33 verðlaun (14 gull, 8 silfur og 11 brons).

Fimleikafólkið hefur sópað að sér.vísir/vilhelm
Gullin hrönnuðust inn t.a.m. á Laugardalsvellinum í gærkvöldi þar sem íslenskt frjálsíþróttafólk vann sjö greinar af fimmtán og fékk í heildina 18 verðlaun á einni kvöldstund.

Sundfólkið okkar hefur einnig verið afskaplega duglegt í verðlaunasöfnun sem og fimleikafólkið sem sópaði að sér verðlaunum í fyrradag

Íslenska fólkið er langt frá því hætt að safna verðlaunum, en allt stefnir í tvö gull í golfi, körfuboltalandsliðin bæði fá aldrei minna en silfur og þá eru eftir úrslitakvöld í sundi og frjálsíþróttum.

Verðlaunataflan á Smáþjóðaleikunum 2015.mynd/iceland2015.is
Með þessum frábæra árangri til þessa hefur Ísland nálgast Kýpur á listanum yfir flest verðlaun í sögu Smáþjóðaleikanna, en fyrir leikana á Íslandi var Kýpur efst með 1.084 verðlaun (418 gull, 347 silfur og 319 brons). Ísland var með 1.029 verðlaun (414 gull, 307 silfur og 308 brons).

Forysta Kýpur í heildarverðlaunum fyrir Smáþjóðaleikana á Íslandi var 55 verðlaun, en nú munar aðeins átta verðlaunum á þjóðunum þegar litið er sögunnar. Kýpur er í heildina 1.117 verðlaun en Ísland 1.109.

Það er alls ekki útilokað að Ísland verði sigursælasta þjóðin á Smáþjóðaleikunum þegar þeim lýkur hér heima.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×