Íslenski boltinn

Stórsigrar hjá ÍBV og Þór/KA | KR áfram eftir vítaspyrnukeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shaneka Gordon skoraði í stórsigri ÍBV á HK/Víkingi.
Shaneka Gordon skoraði í stórsigri ÍBV á HK/Víkingi. vísir/daníel
Fimm leikir fóru fram í 16-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna í kvöld.

Bikarmeistarar Stjörnunnar báru sigurorð af Breiðabliki í stórleik kvöldsins á Samsung-vellinum. Umfjöllun og viðtöl úr leiknum má finna með því að smella hér.

Eyjakonur rúlluðu yfir 1. deildarlið HK/Víkings, 6-0, á Hásteinsvelli. Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði tvö mörk og þær Shaneka Gordon, Sabrína Lind Adolfsdóttir, Cloe Lacasse og Sigríður Lára Garðarsdóttir sitt markið hver.

Þór/KA, sem er í 2. sæti Pepsi-deildarinnar, vann öruggan 4-0 sigur á ÍA í Boganum á Akureyri. Sandra María Jessen gerði tvennu og Andrea Mist Pálsdóttir og Kayla June Grimsley sitt markið hvor.

Vesna Elísa Smiljkovic var hetja Vals gegn Þrótti R. en hún skoraði bæði mörkin í 1-2 sigri Valskvenna í leik sem var framlengdur. Jade A. Flory skoraði mark Þróttar.

Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit í leik KR og Aftureldingar vestur í bæ.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 1-1 en KR-konur voru sterkari á svellinu í vítaspyrnukeppninni sem þær unnu 4-1.

16-liða úrslitunum lýkur svo á morgun með þremur leikjum; Augnablik og Grindavík mætast í Fífunni, Völsungur sækir Selfoss heim og Fylkir tekur á móti Haukum.

Úrslitin í kvöld:

ÍBV 6-0 HK/Víkingur

Þór/KA 4-0 ÍA

KR 1-1 Afturelding (4-1 eftir vítaspyrnukeppni)

Þróttur R. 1-2 Valur

Stjarnan 2-1 Breiðablik


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×