Glamour

Stoltur að hafa ekki klúðrað meiru

Ritstjórn skrifar
Mynd/Silja Magg
Óttarr Proppé vekur athygli hvert sem hann fer, en hann þykir hafa einstakan stíl og fágaða framkomu, á milli þess sem hann syngur dauðarokk fyrir fullu húsi.

Hann hefur komið víða við á ferlinum en hann er tónlistarmaður, fyrrverandi bóksali, leikari, var borgarfulltrúi Besta flokksins í Reykjavík og síðar alþingismaður fyrir Bjarta Framtíð, en því starfi sinnir hann í dag.

Óttarr hefur verið meðlimur hljómsveitarinnar HAM frá árinu 1988 auk þess hann syngur með hljómsveitinni Dr. Spock. Þá hefur hann hefur leikið í kvikmyndum á borð við Sódóma Reykjavík og Englum Alheimsins og en ef til vill er mönnum ferskt í minni þegar hann söng bakraddir í framlagi Íslands til Eurovision í fyrra. 

Óttarr svaraði nokkrum spurningum fyrir maíblað Glamour: 

Um hvað ertu að hugsa núna?

Fjármagnshöft og japanska rithfundinn Haruki Murakami.

Hvað fær þig til að hlæja?

Flest sem fær mig til að hlæja á það sameiginlegt að koma mér á óvart og koma öfugt ofan í það sem mátti búast við.

Hvað fær þig til að gráta?

Óréttlæti heimsins.

Hver er besta uppfinning allra tíma?

Letrið var stórkostleg framþróun sem fullkomnaðist í bókinni. Síðan er það kannski sjálhverft, en ég er líka óendanlega þakklátur fyrir gleraugu.

Áttu þér fyrirmynd eða einhvern sem þú lítur upp til sem hefur kennt þér eða haft áhrif á þig?

Endalaust. foreldrar mínir, afar og ömmur osfrv osfrv. Af mér óþekktum er Henri Charriére, öðru nafni Papillon, mikil fyrirmynd. Hann var ungur dæmdur til vistar í fanganýlendu í Suður Ameríku, sýndi fádæma hetjuskap og hugdirfsku við að flýja vistina. Síðar reyndi hann aftur og aftur við erfiðar aðstæður að koma sér á strik í Venesúela þangað til það tókst. Á gamals aldri uppgvötaði hann loksins fyrirgefninguna og fann sálarró til þess að skrifa um reynslu sína. Fyrirmynd þess að það er aldrei of seint að gera neitt.

Hvar líður þér best?

Uppi í fjalli eða í gjá stórborgarinnar.

Hvar ertu núna?

Í eldhúsinu heima.



Af hverju á ferlinum ertu stoltastur?

Ýmislegt hefur heppnast þokkalega en það besta á eftir að líta dagsins ljós (verður maður ekki að lifa í voninni).

Af hverju í lífinu ertu stoltastur?

Að hafa ekki klúðrað meiru en þó því sem ég hef klúðrað.

Hvað finnst þér verst við samtímann?

Lætin, stressið og ofgnóttin.

Hvað finnst þér best við samtímann?

Fjörið, fjölbreytileikinn og möguleikarnir.

Hvenær blandast ferillinn og persónulega lífið?

Hef löngu gefist upp á að aðskilja þetta tvennt. Það fer bara eftir dagskránni þann daginn.

Hvert er besta ráð sem þér hefur verið gefið?

"Það er ekki það sem þú getur heldur það sem þú gerir" Purrkur Pilnikk

Hver er mesta áhættan sem þú hefur tekið?

Ég reyni að taka sem mesta áhættu almennt innan hættumarka. Sennilega er það ógáfulegasta og mest út úr karakter sem ég hef gert annars vegar að fara að syngja með hljómsveitum og hins vegar að  bjóða mig fram til borgarstjórnar. Það er hins vegar enginn leið að vita hversu mikil áhætta fólst í þessu fyrst ég lifði hvorttveggja af.

Geturðu mælt með bók eða ljóði sem hafði mikil áhrif á þig?

Bókin um veginn eftir Lao Tse hafði og hefur ennþá mikil áhrif á mig. Annars held ég að bíómyndin Fitzcaraldo eftir Werner Herzog hafi haft meiri áhrif á mig en flestar bækur.

Hver er fyrsta minningin sem þú átt?

Það er mjög óljóst en ég man eftir að hafa hitt stóran hund í sveitinni sem reyndist vera pínulítill minkaveiðihundur. Okkur varð vel til vina.

Hvaða samband er þér mikilvægast?

Samband mitt við konuna mína.

Hvað er það rómantískasta sem þú hefur gert?

Er frekar misheppnaður rómantíker en mér finnst mjög rómantískt að sitja á steinum og horfa í himininn eða í hafið. Reyni að gera eins mikið af því og ég get.

Ertu andlegur gaur?

Á köflum get ég verið það. Hef allavega mjög gaman að velta hlutum fyrir mér og kryfja þá eins og ég hef vit á.

Ef þú mættir breyta einu í heiminum, hvað væri það?

Mig dreymir um betri hljóðmynd á jörðinni og minni óþarfa hávaða. Hávaði hefur svo slæm áhrif á sálina og sálin hefur meiri áhrif á líkamann og samfélagið allt en okkur grunar.



Fylgstu með Glamour á Facebook og Instagram.






×