Lífið

Íslenskir kjósendur vildu gefa Ítalíu 12 stig

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Tríóið Il Volo hafnaði í þriðja sæti í keppninni.
Tríóið Il Volo hafnaði í þriðja sæti í keppninni. Vísir/EPA
Niðurstöður úr símakosningu á Íslandi voru nokkuð á skjön við niðurstöður íslensku dómnefndarinnar í Eurovision hvað varðar ítalska atriðið. Þannig kusu langflestir Íslendinga ítalska tríóið og hafnaði það í fyrsta sæti eftir símakosningu. Hins vegar setti dómnefnd það í ellefta sæti. Það fékk því að lokum fimm stig frá íslensku þjóðinni.

Sænska lagið Heroes sem bar sigur úr bítum í keppninni í gær hlaut tólf stig frá Íslendingum en það var í öðru sæti í símakosningu hér á landi en fékk fyrsta sætið eftir niðurstöður dómnefndar. Dómnefnd og kjósendur hér á landi voru sammála um ágæti Ástralíu en Guy Sebastian hafnaði í þriðja sæti eftir símakosningu og fjórða sæti dómnefndar. Hins vegar setti íslenska dómnefndin Noreg í annað sæti í sínum niðurstöðum en Noregur hafnaði í fjórða sæti í símakosningu. Noregur fékk því tíu stigin frá Íslandi í gærkvöldi.

Íslenskir kjósendur voru hrifnari af belgíska laginu heldur en dómnefnd og settu það í fimmta sæti þegar dómnefnd setti það í það áttunda. Í sjötta sæti hjá báðum aðilum var Ísraelinn sem minnti marga landsmenn á Friðrik Dór með lagið Golden Boy.

Polina Gagarina frá Rússlandi brast í grát að flutningi loknum.Vísir/EPA
Rússland var ekki jafnvinsælt hjá Íslendingum og öðrum Evrópuþjóðum en það lenti í sjöunda sæti eftir atkvæðagreiðslu dómnefndar og því níunda í símakosningu.

Dómnefnd og íslenskir kjósendur voru mest ósammála um ágæti austurríska lagsins sem hlaut ekkert stig í keppninni í gærkvöldi. Dómnefnd setti gestgjafana í níunda sæti en það varð í tuttugasta og fyrsta sæti eftir símakosningu. Þar munaði því þrettán sætum. Íslenskir kjósendur voru einnig almennt hrifnari af breska atriðinu heldur en dómnefnd en þar munaði tíu sætum. Breska parið hafnaði í næstneðsta sæti hjá dómnefnd en í því fimmtánda hjá kjósendum. 

Heildarniðurstöður íslensku atkvæðagreiðslunnar má sjá hér að neðan. Skjáskotið er af síðu Eurovision TV en hana má nálgast hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.