Eldfjallið Wolf í Galapagos-eyjaklasanum tók að gjósa af miklum krafti í dag í fyrsta sinn í 33 ár. Gosið er talið stefna viðkvæmu lífríki eyjanna í mikla hættu en lífríkið var Charles Darwin innblástur þegar hann vann að þróunarkenningu sinni um miðja nítjándu öld.
Þjóðlenduráð Ekvador segir í samtali við þarlenda fjölmiðla að hið 1.7 kílómetra háa eldfjall hafi tekið að spúa eldi, reyk og hrauni skömmu fyrir hádegi að ekvadorskum tíma en fjallið liggur á norðurströnd eyjunnar Isabela sem er sú stærsta í eyjaklasanum.
Fjallið liggur í um 115 kílómetra fjarlægð frá næsta þéttbýli, borginni Purto Villamil, og talið er að gosið mun ekki hafa mikil áhrif á ferðamannaiðnaðinn á svæðinu.
Yfirvöld hafa lýst því yfir að hraunið sem vellur úr fjallinu til suðvesturs muni þó ekki koma til með að hafa áhrif á stofn hinnar bleiku ígúana-eðlu sem er í útrýmingarhættu.