Íslenski boltinn

Ólafur: Stjarnan er með öðruvísi lið en í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera handhafar allra fjögurra titlanna í kvennaflokki er Stjörnunni ekki spáð sigri í Pepsi-deild kvenna í sumar.

Stjarnan fékk 272 stig í árlegri spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna liðanna í deildinni, fimm stigum minna en Breiðablik.

„Fólk hefur greinilega ekki trú á að við höldum þessum titlum,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Valtý Björn Valtýsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Stjarnan hefur unnið Breiðablik tvívegis með skömmu millibili í vor, fyrst í úrslitaleik Lengjubikarsins og svo í Meistarakeppni KSÍ. Báðir sigrarnir voru nokkuð öruggir og Íslandsmeistararnir komandi á mikilli siglingu inn í mótið.

„Þetta voru jafnari leikir en tölurnar gefa til kynna. Þetta er búið að vera jafnt í vetur og við erum búin að tapa leikjum og Breiðablik tapaði fyrir okkur,“ sagði Ólafur sem útilokar ekki að önnur lið blandi sér í toppbaráttuna.

„Svo eru þarna önnur lið, það má ekki gleyma því. Þetta snýst ekki bara um Stjörnuna og Breiðablik. Það er fullt af góðum liðum í deildinni,“ sagði þjálfarinn en hvernig er Stjörnuliðið í ár miðað það sem hann var með í fyrra?

„Þetta er svolítið öðruvísi lið. Við erum búin að missa sterka pósta úr liðinu og útlendingarnir sem við vorum með í fyrra verða ekki með okkur í ár.

„Þetta er smá breyting en hópurinn er góður,“ sagði Ólafur ennfremur en viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×