Erlent

Dóu í átökum um síðasta matinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólkið heldur nú til í vöruskemmu í bænum Langsa í Indónesíu. Mörg þeirra eru vannærð.
Fólkið heldur nú til í vöruskemmu í bænum Langsa í Indónesíu. Mörg þeirra eru vannærð. Vísir/AFP
Flóttamenn sem bjargað var úr sökkvandi skipi við stendur Indónesíu segja að um hundrað þeirra hafi látið lífið í átökum um síðasta matinn um borð. Mörgum var kastað útbyrðis, einhverjir voru stungnir og fólk var jafnvel hengt um borð í skipinu.

Samkvæmt BBC var um 700 manns bjargað úr skipinu sem var að sökkva. Blaðamaður ræddi við nokkra af skipinu, en tekur þó fram að sögur þeirra hafi ekki verið staðfestar. Hins vegar lýstu þeir átökunum á mjög svipaðan hátt.

Flóttamennirnir reyndu að sigla til Malasíu, en sjóherinn þar rak þau á brott. Talið er að þúsundir flóttamanna séu nú á reki við Suðaustur-Asíu eftir að hafa verið neitað að koma að landi. Skipið sem fólkinu var bjargað úr hafði verið á ferðinni í tvo mánuði, en áhöfn þess hafði yfirgefið það. Fólkinu var bjargað af sjómönnum frá Indónesíu á föstudaginn.

Fólkið er að mestu frá Myanmar og Bangladess. Í morgun var sagt frá því að minnst fjórir bátar með allt að þúsund flóttamenn séu nú við akkeri við strendur Myanmar. Þar sem yfirvöld í Indónesíu og Malasíu stöðva báta sem reyna að fara þangað, hafa smyglararnir sem sjá um bátana ekki lagt af stað. Þá neita þeir að hleypa fólkinu frá borði án þess að greitt sé lausnargjald fyrir þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×