Körfubolti

Magnús aftur í Keflavík: Síðustu félagsskiptin á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson. Vísir/Daníel
Magnús Þór Gunnarsson hefur ákveðið að koma aftur heim og spila með Keflavík í Dominos-deild karla í körfubolta á næstu leiktíð en þetta staðfesti hann við Vísi í kvöld.

„Það segja það allir að ég eigi bara að vera í Keflavík en tíminn sem ég var í burtu var rosalega skemmtilegur og lærdómsríkur," sagði Magnús Þór.

„Það lítur beinast við að koma heim, taka eitt, tvö, þrjú, fjögur tímabil og hætta síðan," sagði Magnús sem er orðinn 34 ára gamall.

„Ég reikna fastlega með því að þetta séu félagsskiptin á ferlinum. Ég reikna bara með því að fara að þjálfa og reyna að kenna öðrum það sem ég kann. Þetta er að komast á endastoppistöð og maður verður að trappa sig niður," sagði Magnús.

Magnús Þór er að koma heim í þriðja sinn en hann er uppalinn hjá Keflavíkurliðinu og hefur unnið fjóra Íslandsmeistaratitla með félaginu.

Að þessu sinni var Magnús aðeins í burtu í eitt tímabil. Magnús Þór lék með Grindavík og Skallagrím á síðustu leiktíð og var með 13,9 stig og 2,6 stoðsendingar í 20 leikjum, 12,4 og 2,3 með Grindavík og 15,0 og 2,7 með Skallagrím.

Magnús yfirgaf Keflavík í fyrra skiptið eftir 2007-08 tímabilið og spilaði þá í Danmörku og með Njarðvík áður en hann kom aftur til Keflavíkur.

Keflavík er enn án þjálfara en sú staða hafði ekki áhrif á ákvörðun Magnúsar.

„Það er ekki alveg komið á hreint hver þjálfar liðið. Ég veit möguleikana sem eru í boði og það angrar mig ekki. Ég er sáttur með einn af þessum möguleikum sem eru í boði," sagði Magnús.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×