„Það svaf enginn yfir sig í dag og allir vaknaðir hressir um klukkan átta um morguninn. Fórum með Fjallið í morgunmat og borðuðum vel. Síðan var skellt sér upp á herbergi og tekin kría þar sem það beið bara ein grein eftir hádegi,“ segir Einar Magnús Ólafíuson, félagi Hafþórs Júlíusar eða Fjallsins sem keppir um þessar mundir í keppninni. Einar og Andri Reyr Vignisson eru með þeim stóra úti og standa þétt við bakið á honum.
Sjá einnig: Fjallið borðaði 1,7 kíló af kjöti og ostaköku kvöldið fyrir fyrsta keppnisdag
Eftir hádegismat tók við rútuferð á mótsstaðinn. „Það var góð stemning í rútunni og mikið hlegið á leiðinni. Þegar við komum á mótsstað var örlítil töf sem seinna átti eftir að vinna gegn gangi mála fyrir mótshaldara. Þegar fyrsti riðill hafði klárast og komið var að riðlinum hjá okkar manni kom þessi úrhellisrigningu með þrumum og eldingum í stíl. Stöðva þurfti keppni í tæpar tvær klukkustundir en við Andri létum það ekki á okkur fá heldur dönsuðum í rigningunni meðan flestir földu sig inn í tjöldunum,“ segir Einar Magnús.

„Hann hefði einungis þurft að lyfta einum stein upp á tunnu til að enda efstur í sínum riðli. Hafþór gerði sér hinsvegar lítið fyrir og henti fjórum steinum léttilega upp á tunnurnar á rétt um tuttugu sekúndum,“ segir Andri Reyr.

„Keppninni lauk frekar seint í dag vegna rigningar og þegar við komum upp á hótel skelltum við okkur allir í sturtu og beint á sérstakan gala-kvöldverð fyrir keppendur og aðstandendur þeirra sem var í boði mótshaldara. Þar hittum við Benna [Benedikt Magnússon] sem var nokkuð brattur þrátt fyrir meiðslin og í góðum anda. Við skemmtum okkur konunglega, fengum fínan mat og hljómsveit spilaði fyrir dansi sem annars enginn þorði að stíga,“ segir Einar en úrslitin hefjast á laugardag og klárast á sunnudaginn.
Sjá einnig: Benedikt meiddist í Kuala Lumpur
Andri Reyr Vignisson og Einar Magnús Ólafíuson verða augu og eyru Vísis í Kuala Lumpur. Fylgist vel með umfjöllun Vísis um keppnina Sterkasti maður heims 2015.