Körfubolti

Búinn að klikka á fleiri vítum en öll hin liðin í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Francis hefur aðeins nýtt 15 af 50 vítaskotum sínum í úrslitakeppninni.
Alex Francis hefur aðeins nýtt 15 af 50 vítaskotum sínum í úrslitakeppninni. Vísir/Vilhelm
Alex Francis, bandaríski miðherjinn í liði Hauka, var slakur á vítalínunni í deildarkeppninni en hann hefur verið miklu verri í úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfubolta.

Alex Francis hefur aðeins nýtt 15 af 50 vítaskotum sínum í fyrstu sex leikjum Hauka í úrslitakeppninni. Þetta gerir 30 prósent vítanýtingu en hann nýtti 49 prósent víta sinna í deildarkeppninni.

Það er ekki einn einstaka leikur sem er að fella Alex Francis því besta vítanýting hans í einum leik var 44 prósent nýting í fyrsta leik liðsins í átta liða úrslitunum.

Alex Francis klikkaði á 9 af 10 vítum sínum í síðasta leik Haukanna og hann er þar með búinn að klikka á 35 vítum í úrslitakeppninni.

Það þýðir jafnframt að Alex Francis er búinn að klikka á fleiri vítum en öll hin liðin í úrslitakeppninni.

Allt lið Tindastóls hefur klikkað á 34 vítum eða einu færra en Alex Francis.

Flest klikkuð víti í úrslitakeppninni:

  1. Alex Francis - 35
  2. Tindastóll - 34
  3. Restin af Haukaliðinu - 34
  4. Njarðvík - 28
  5. Stjarnan - 27
  6. KR  -  19
  7. Þór Þ. - 19
  8. Keflavík -  16
  9. Grindavík  -  11



Fleiri fréttir

Sjá meira


×