Körfubolti

Ívar: Slæmur undirbúningur fyrir fyrstu tvo leikina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ívar Ásgrímsson.
Ívar Ásgrímsson. Vísir/Vilhelm
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var ánægður með sína menn eftir að þeir minnkuðu muninn í 2-1 í rimmu liðsins gegn Tindastóli í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla með sigri í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

"Við lögðum okkur fram," sagði Ívar. "Þetta er mjög einfalt. Við vorum að berjast betur í dag heldur en í síðustu tveimur leikjum. Þetta minnti mig á leikina gegn Keflavík þar sem menn voru að djöflast og berjast."

"Við eignuðum okkur frákastabaráttuna og ef það var bolti á gólfinu þá henti einhver okkar á hann. Þegar tvö svona jöfn lið berjast þá skiptir þetta máli."

Ívar sagði andlega þáttinn skipta miklu máli í svona einvígi og Haukarnir náðu ekki upp stemningu fyrir fyrstu tvo leikina. Meðal annars vegna veikinda þjálfarans.

"Undirbúningurinn fyrir fyrstu tvo leikina var ekki góður. Ég lenti í veikindum og var ekki með neinar æfingar fyrir fyrsta leikinn. Því náðum við ekki að búa til þá stemningu sem við þurftum," sagði Ívar.

"Þetta hefur ekkert með formið eða neitt að gera. Í svona leikjum skiptir andlegi  hlutinn miklu máli. Við vorum ekki tilbúnir í fyrstu tvo leikina en vorum klárir í dag."

"Við höfum notað sömu leikáætlun í hverjum einasta leik en hún skiptir engu máli ef menn eru ekki að berjast. Um leið og menn leggja sig frá þá virka hlutirnir. Það er bara þannig."

Aðspurður hvort þessi sigur hafi verið skilaboð til Tindastóls svaraði Ívar um leið: "Það verður bara gaman að koma hingað í fimmta leikinn."

Nánari umfjöllun um leikinn má finna hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×