Tæplega 700 manns hafa skrifað undir mótmælayfirlýsingu á vegum íbúa og fasteignaeigenda í Vallahverfi í Hafnarfirði gegn umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Fyrirtækið hefur óskað eftir því að fá að reisa bráðabirgðaloftlínu frá tengivirkinu við Hamranes.
Meðalhæð þeirra mastra sem á að reisa er áætluð 13,5 metrar.
„Tengivirkið við Hamranes er til bráðabirgða og við mótmælum því harðlega að reistar séu nýjar loftlínur frá tengivirkinu,“ segir í yfirlýsingunni. Þar er þess einnig krafist að Ísallínur 1 og 2 verði settar í jörð sem og Suðurnesjalínur, bæði sú sem er til staðar og sú sem áætluð er að verði lögð. Þá vilja íbúarnir einnig að Hamraneslína 1 og 2 verði lögð í jörð frá Ásfjalli.
„Loftlínurnar munu að okkar mati hafa verulega neikvæð áhrif á útivist, útsýni og hljóðvist í Vallahverfinu og hafa áhrif til lækkunar fasteignaverðs og að auki festa í sessi tengivirki sem ítrekað hefur verið lofað að skuli hverfa eða minnka verulega að umfangi,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar er vísað til ályktunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá því í desember á síðasta ári þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að Hamraneslínur verði fjarlægðar.