Körfubolti

Pavel: Verð ekki með í fyrstu leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Um fátt er meira rætt meðal íslenskra körfuboltaáhugamanna en meiðsli Pavels Ermolinskij, leikstjórnanda Íslandsmeistara KR.

Pavel meiddist í 4. leikhluta í bikarúrslitaleik KR og Stjörnunnar 21. febrúar síðastliðinn og hefur verið frá keppni síðan þá, ef frá taldir eru fyrstu tveir leikirnir í einvíginu gegn Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Pavel spilaði ekkert í þriðja leiknum gegn Grindavík en það kom ekki að sök því Íslandsmeistararnir sópuðu þeim gulklæddu úr keppni, 3-0.

Annað suðurnesjalið, Njarðvík, bíður KR-inga í undanúrslitunum en fyrsti leikur liðanna fer fram í DHL-höllinni annað kvöld. Pavel segir að hann muni ekki spila þann leik né næstu leiki.

„Ég verð ekki með í fyrstu leikjunum. Það er misjafnt milli daga hvernig mér líður,“ sagði Pavel í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 en Gaupi tók hús á honum í Kjöt & Fisk, sælkerabúð sem Pavel rekur ásamt félaga sínum í íslenska landsliðinu, Jóni Arnóri Stefánssyni.

„Við ætlum ekki að taka neina áhættur. Strákarnir stóðu sig vel gegn Grindavík og fóru taplausir í gegnum þá seríu án mín, þannig að þeir ættu að geta séð um þessa seríu líka,“ sagði Pavel ennfremur en hann var einn allra besti leikmaður deildarkeppninnar í vetur og endaði með þrefalda tvennu að meðaltali í leik.

Pavel segist hafa farið of snemma af stað eftir meiðslin.

„Ég fór kannski of snemma af stað eftir þetta og tók tvö skref aftur þegar ég meiddist aftur á móti Grindavík. Ég var full fljótur á mér en maður vill auðvitað taka þátt og vera með,“ sagði leikstjórnandinn en innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.

Leikur KR og Njarðvíkur hefst klukkan 19:15 annað kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×