Körfubolti

Hvergi eins flott umgjörð á landinu og hérna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Helgi Freyr Margeirsson er einn af reynsluköppunum í liði Tindastóls og hann vill nýta tækifærið og fara alla leið með Stólunum í ár.

„Það er hellingsreynsla í þessu liði og hellingshæfileiki. Þessir ungu strákar eru ekkert ungir lengur. Þeir voru með okkur í 1. deildinni í fyrra og hafa fengið mikla reynslu í vetur. Það er alveg sama hvaða kappa þjálfarinn setur inná, það eru allir tilbúnir," segir Helgi Freyr.

„Ef þú fylgist með bekknum hjá okkur þá sérðu að strákarnir á endanum eru jafn tilbúnir að koma inn á eins og strákarnir sem eru fremst. Þeir vita aldrei hver á að koma inná næst og þessir strákar eru búnir að sanna sig í vetur."                  

Þrátt fyrir að þið hafið fengið frí eftir að hafa sópað Þór Þorlákshöfn út úr keppni í 8-liða úrslitum var ekkert ryð í ykkur, þið voruð hungraðir í að spila körfubolta.

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum að fá ákveðið tækifæri hérna. Við erum nokkrir búnir að vera ansi lengi í þessu en Svavar Birgisson er sá eini í liðinu sem hefur komist þetta langt áður. Skilaboð okkar til ungu strákanna; þið fáið ekki þetta tækifæri alltof oft og við skulum nýta það. Nú tökum við þetta alla leið."

Umgjörðin er glæsilegt og stemningin mikil, hve gaman er að taka þátt í þessu ævintýri?  

„Þetta er bara algjör snilld. Þú sérð það bara, það er allur fjörðurinn iðandi og við fáum fólk úr öðrum sveitarfélögum á leikina.  Ég held að það sé hvergi eins góð umgjörð um körfubolta og hérna. Við erum með einhverja flottustu stuðningsmannasveit á landinu.

„Þeir eru ekki bara að mæta á leikina í úrslitakeppninni. Þeir eru með lög um hvern leikmann og alla dómarana og þeir eru jákvæðir. Það eru svo rosalega margir á bak við þetta, ekki örfáir í baklandinu heldur allur bærinn. Það er ekkert félag á landinu með svona bakland."

Viðtalið við Helga má sjá í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×