Innlent

Elding gataði nef flugvélar Icelandair

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gatið á vél Icelandair.
Gatið á vél Icelandair. Skjáskot af vef 9News
Flugvél Icelandair á leið frá Keflavík til Denver í Colorado fylki í Bandaríkjunum í gær varð fyrir eldingu skömmu eftir flugtak. Flugvélin lenti engu að síður heilu og höldnu í Denver.

Farþegi í flugvélinni tók mynd af vélinni eftir að hafa farið frá borði. Á myndinni blasir við nokkuð stórt gat á nefi flugvélarinnar sem líkast til má rekja til eldingarinnar.

9news.com fjallar um málið og hefur eftir farþeganum. Brandon Boldenow, að flugstjóri vélarinnar hafi tilkynnt farþegum að ekkert amaði að vélinni. Hann telur þó að flugstjórinn hafi líkast til ekki verið meðvitaður um skemmdirnar á nefi vélarinnar.

Haft er eftir talsmanni Icelandair að öll kerfi hafi virkað sem skyldi og því fluginu verið framhaldið.

Flugsérfræðingur 9News, Greg Feith, segir að í ljósi skemmdanna hefði átt að snúa vélinni við. Flugvélar verði almennt aðeins fyrir eldingu einu sinni til fimm sinnum á ári. Afleiðingarnar af eldingunni hefðu getað orðið mun verri.

Flugvélin verður á flugvellinum í Denver á meðan gert er að henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×