Sport

Loksins, loksins: Mayweather og Pacquiao munu berjast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það er komið að því!
Það er komið að því! vísir/getty
Eftir fimm ára rifrildi milli Floyd Mayweather Jr. og Manny Pacquiao er loksins orðið ljóst að kapparnir munu berjast.

Daily Mail greinir frá því í dag að bardaginn fari fram 2. maí í Las Vegas en bara sé beðið eftir því að Mayweather tilkynni að hann ætli loks að berjast við Pacquiao.

Þeir félagarnir fá samtals 250 milljón dali fyrir bardagann eða 33 milljarða króna. Þetta er sá bardagi sem allir hnefaleikaáhugamenn hafa beðið eftir í mörg ár.

Mayweather er enn ósigraður eftir 47 bardaga og heldur þremur af fjórum veltivigtarbeltunum. Pacquiao er eini maðurinn sem hefur orðið heimsmeistari í átta þyngdarflokkum og er handhafi WBO-heimsmeistaratitilsins í veltivigt.

Ekki nóg með að þeir berjist einu sinni heldur er talið að hvernig sem fari muni kapparnir mætast öðru sinni og fá þá 300 milljón dali samtals í sinn hlut eða tæpa 40 milljarða króna.

Bardakapparnir voru víst búnir að samþykkja að berjast fyrir nokkrum vikum, en síðasta deilumálið var á milli sjónvarpsstöðvanna Showtime og HBO. Showtime er með samning við Mayweather en HBO við Pacquiao.

Þær hafa sannmælst um að sýna báðar bardagann beint en síðasta deilumálið var hvor stöðin fengi að endursýna bardagann fyrst. Það mál er nú leyst.

Búist er við að bardaginn muni kosta sjónvarpsáhorfendur í Bandaríkjunum 100 dali eða 13 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×