Fótbolti

Kompany: Börsungar ekki jafn harðir og Stoke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Vincent Kompany, varnarmaður og fyrirliði Manchester City, segir að það sé engin sérstök ástæða til að óttast stjörnum prýtt lið Barcelona en liðin eigast við í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Þessi lið mættust á sama stigi keppninnar í fyrra og þá hafði Barcelona betur í viðureignunum tveimur, 4-1. En Kompany segir að hann hafi mætt harðgerðari liðum en Barcelona.

„Það er ekki kostur Barcelona að valda andstæðingnum skaða allan leikinn. Það er hægt að fara í harðari leiki með því að spila gegn Stoke á útivelli. Þetta snýst frekar um að Barcelona getur gert út um leiki á nokkrum sekúndum,“ sagði Kompany.

„Barcelona er sérstakt lið með sérstaka leikmenn. Þeir eru með fleiri leikmenn sem geta klárað leiki upp á sitt einsdæmi en nokkurt annað lið í heiminum,“ segir hann enn fremur.

„Þetta eru leikirnir sem maður vill spila fremur en nokkuð annað. Ef við eigum góðan dag þá gæti þetta orðið sérstakt kvöld. Við erum nú að spila við þá fjórða árið í röð. Það er ekkert nýtt að óttast - við þurfum bara að ná okkar allra besta fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×