Sport

O'Sullivan: Eins og að spila í verslunarmiðstöð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eldflaugin er ekki sátt.
Eldflaugin er ekki sátt. vísir/getty
Ronnie O'Sullivan, fimmfaldur heimsmeistari í snóker, vann tvo leiki í gær á fyrsta degi opna velska meistaramótsins.

Keppt er í fyrsta sinn í Motorpoint Arena í Cardiff og er spilað á tíu borðum samtímis. „Þetta er eins og að spila í verslunarmiðstöð,“ sagði O'Sullivan ósáttur í viðtali við BBC í gær.

„Fólk stendur upp hvenær sem það vill og færir sig á milli sæta. Það eru óskrifaðar reglur í snóker að áhorfendur hreyfi sig ekki þegar spilarinn er að skjóta.“

Opna velska mótið hefur undanfarin níu ár verið haldið í Newport Centre-höllinni en ákveðið var að stækka við sig fyrir þetta ár.

„Ég er ekki ánægður með þetta. Newport var ein af mínum uppáhaldshöllum þannig það var ömurlegt að færa mótið. Ég hef spilað hérna áður. Þetta er eins og að spila í flugskýli,“ sagði O'Sullivan.

Þessi magnaði snókerspilari hefur verið gagnrýninn á mótahald að undanförnu, en í desember var hann mjög ósáttur við hvernig var staðið að opna breska meistaramótinu.

Þar var spilað á fjórum borðum í einu í staðinn fyrir að spila á tveimur eins og tíðkast hefur. Hann vildi meina að það varð til þess að margir af bestu spilurum heims féllu snemma úr leik.

„Ég býst við að við sjáum fleiri óvænt úrslit þar til það verður byrjað að spila á tveimur borðum. Þetta er eins og að biðja Roger Federer um að spila á velli þrettán á Wimbledon fyrir framan þrjá menn og hund,“ sagði O'Sullivan í viðtali við BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×