Fótbolti

Cavani bjargaði PSG í París | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Branislav Ivanovic skorar mark Chelsea.
Branislav Ivanovic skorar mark Chelsea. Vísir/Getty
PSG mátti sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Chelsea í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Bæði mörk leiksins voru skoruð með skalla. Branislav Ivanovic kom Chelsea yfir eftir undirbúning John Terry og Gary Cahill á 36. mínútu en Edinson Cavani jafnaði metin fyrir PSG eftir sendingu Blaise Matuidi snemma í síðari hálfleik.

Leikurinn byrjaði rólega en mark Chelsea hleypti lífi í leikinn. Heimamenn fengu svo betri færi í síðari hálfleik en náðu ekki að skora aftur fram hjá hinum öfluga Thibaut Courtois í marki þeirra ensku. Cavani og Zlatan Ibrahimovic fengu báðir færi til að skora en allt kom fyrir ekki.

David Luiz, sem var seldur frá Chelsea til PSG í sumar, spilaði á miðjunni í kvöld og var næstum búinn að skora gegn sínu gamla félagi er hann skallaði fyrirgjöf Lavezzi að marki en Courtois náði að blaka boltanum yfir markið.

Jose Mourinho og lærisveinar hans gátu því gengið sáttir frá velli en úrslitin þýða að PSG verður að skora á Stamford Bridge í síðari leik liðanna, þann 11. mars, til að komast áfram í fjórðungsúrslit keppninnar.

Mörk leiksins má sjá hér fyrir neðan.

Branislav Ivanovic kom Chelsea yfir seint í fyrri hálfleik: Edinson Cavani jafnaði metin fyrir PSG á 54. mínútu:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×