Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, gagnrýndi leikmenn franska liðsins Paris Saint-Germain fyrir meðferð þeirra á belgíska landsliðsmanninum Eden Hazard í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.
Leikmenn PSG settu nýtt met á Meistaradeildar-tímabilinu í leiknum með því að brjóta níu sinnum á Eden Hazard í þessum leik.
Varnar- og miðjumenn Parísar-liðsins voru í vandræðum með þennan snjalla Belga sem heldur bolta vel og er fljótur á fæti.
Marco Verratti braut oftast á Hazard í leiknum eða alls þrisvar sinnum. Marco Verratti fékk alls fimm aukaspyrnur dæmdar á sig í leiknum einni fleiri en David Luiz.
Þess má geta að Eden Hazard sjálfur braut aldrei af sér í þessum leik á Parc des Princes í gær.
„Þessi Hazard-strákur er hreinn og beinn. Ef hann fer í grasið þá er ástæða fyrir því og þeir brutu níu sinnum á honum," sagði Jose Mourinho. Þegar hann var spurður út í það hvernig ætti að verja Hazard þá var hann fljótur að svara.
„Látið mótherja hans frá spjöld. Fylgið reglum leiksins. Það er ekkert flóknara en það," sagði Mourinho.
Mourinho hefur oft talað um það áður að Eden Hazard sér aldrei að reyna að fiska neitt á andstæðinga sína. Það sást líka að í gær stóð hann nokkur spörk af sér sem hefðu auðveldlega geta orðið tíunda aukaspyrnan.
Enski boltinn