Handbolti

Syprzak tryggði Pólverjum bronsið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michal Jurecki skorar eitt þriggja marka sinna gegn Spánverjum í dag.
Michal Jurecki skorar eitt þriggja marka sinna gegn Spánverjum í dag. vísir/afp
Pólland tryggði sér bronsverðlaun á HM í Katar með eins marks sigri, 29-28, á Spáni í framlengdum leik um 3. sætið í Lusail í dag. Þetta er í þriðja sinn sem Pólverjar vinna brons á HM, en það gerðu þeir einnig árin 1982 og 2009.

Pólverjar byrjuðu leikinn betur, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og náðu tvívegis fjögurra marka forskoti (5-1 og 6-2).

Spánverjar unnu sig hægt og sígandi inn í leikinn og náðu að jafna í 11-11 þegar sjö og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik. Staðan var svo jöfn í hálfleik, 13-13.

Heimsmeistararnir voru jafnan fyrri til að skora í byrjun seinni hálfleiks en alltaf jöfnuðu Pólverjar. Spánverjar tóku svo völdin um miðjan seinni hálfleik og breyttu stöðunni úr 17-17 í 18-22.

Pólverjar höfðu hins vegar ekki sagt sitt síðasta og náðu í þrígang að minnka muninn í eitt mark og það var síðan örvhenta skyttan Michal Szyba sem tryggði Póllandi framlengingu þegar hann jafnaði í 24-24 með sínu áttunda marki.

Pólverjar voru alltaf á undan að skora í framlengingunni og unnu að lokum eins marks sigur, 29-28. Það var línumaðurinn Kamil Syprzak sem skoraði sigurmark Póllands þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum.

Szyba var markahæstur í liði Pólverja með átta mörk en Syprzak kom næstur með sex. Þá skoraði Adam Wisniewski fjögur mörk úr vinstra horninu.

Victor Tomás skoraði sjö mörk fyrir Spánverja en Antonio García kom næstur með fimm.


Tengdar fréttir

Pólverjar skelltu Króötum

Pólverjar tryggðu sér sæti í undanúrslitum HM í handbolta eftir spennutrylli gegn Króötum.

Katar komið í úrslit á HM

Ævintýri fjölþjóðalandsliðs Katar í handbolta hélt áfram í dag er liðið tryggði sér farseðilinn í úrslitaleik HM. Það sá enginn fyrir að gæti gerst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×