Bandaríski tölvurisinn Apple hagnaðist um einn milljarð króna á hverri klukkustund á síðasta ársfjórðungi. Á hverri mínútu hagnaðist fyrirtækið um 18 milljónir króna og um 300 þúsund krónur á sekúndu. Þetta kemur fram í tölum sem The Daily Mail hefur tekið saman.
Í heild hagnaðist fyrirtækið um 2.395 milljarða króna á ársfjórðungnum sem er umtalsvert meira en landsframleiðsla Íslands á öllu árinu 2013 en hún var 1.873 milljarðar. Raunar er þetta mesti hagnaður sem nokkurt fyrirtæki hefur skilað á einum ársfjórðungi.
Sjá einnig: Apple skilur keppinautana eftir í rykinu
Heildarvirði hlutabréfa í Apple er 84.000 milljarðar króna. Það er meira en landsframleiðsla allra ríkja heimsins að undanskildum þeim 20 ríkustu. Þá á Apple 24.000 milljarða króna í reiðufé.
Bandaríska ríkið myndi fá 8000 milljarða króna í ríkiskassann ef Apple myndi greiða hefðbundinn 35 prósent bandarískan fyrirtækjaskatt af erlendum eignum sínum.
Sjá einnig: Apple kynnir stærstu breytinguna á iPhone hingað til
Hinsvegar greiddi félagið einungis 1 prósent skatt af tekjum sínum í Bretlandi á síðasta ári. Talið er að fyrirtækið hafi selt vörur fyrir 2.000 milljarða króna. Vegna tekjutilfærslna milli landa og skattasamninga við ýmis ríki gaf fyrirtækið upp 19 milljarða króna til skatts í Bretlandi og af því greiddi Apple einungis 220 milljónir í skatt.
Apple græddi milljarð á klukkustund
