Raftækjaverslanakeðjan RadioShack hefur sótt um gjaldþrotaskipti og mun selja 2.400 af fjögur þúsund verslunum sínum. Hinum verður að öllum líkindum lokað, en fyrsta verslun fyrirtækisins var opnuð árið 1921.
Á vef CNN kemur fram að þessi ákvörðun komi ekki á óvart ytra eftir að kauphöllin í New York stöðvaði viðskipti með hlutabréf fyrirtækisins á mánudaginn.
Hnignun RadioShack á sér langa sögu og hefur sala fyrirtækisins versnað ár frá ári um langt skeið. Í síðasta ársfjórðungsuppgjöri fyrirtækisins kom í ljós að sölutekjur fyrirtækisins hafði minnkað um 16 prósent á milli ára.
Í upphafi síðasta árs lenti fyrirtækið í vandræðum með lausafé og sat uppi með fimm þúsund verslanir í Bandaríkjunum. Í mars var tilkynnt að til stæði að loka um 1.100 verslunum, en vegna mikils kostnaðar við slíkar aðgerðir tókst RadioShack einungis að loka 175 verslunum.
RadioShack sækir um gjaldþrotaskipti
