Samkvæmt 22. grein í reglum um Söngvakeppni Sjónvarpsins ber að opinbera nöfn dómnefndarmanna í síðasta lagi viku fyrir úrslitakeppni Söngvakeppninnar og því ljóst að ekki hefur verið farið eftir þessari reglu.
„Því miður þurfti aðeins að breyta til þannig að við þurfum daginn í dag til að festa þetta,“ segir Hera Ólafsdóttir, verkefnastjóri keppninnar um þetta brot á reglum Söngvakeppninnar.
Hera segir tilkynningar að vænta síðar í dag eða á morgun þar sem nöfn dómnefndarmanna verða opinberuð.

Seinna undankvöld Söngvakeppni Sjónvarpsins fór fram síðastliðinn laugardag og er nú ljóst hvaða lög keppa um að verða framlag Íslendinga í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, sem fer fram í Vín í Austurríki í maí.
Sex þessara laga voru valin af almenningi í gegnum símakosningu en lag Karls Olgeirs Olgeirssonar, Milljón augnablik, var valið inn í úrslitaþáttinn af sérstakri dómnefnd. Lagið er flutt af Hauki Heiðari Haukssyni, söngvara Diktu.
Hera Ólafsdóttir segir dómnefndina sem valdi lagið áfram í úrslit Söngvakeppninnar ekki þá sömu og þá sem mun hafa áhrif á úrslitin næstkomandi laugardagskvöldi. Þá segir Hera nöfn þeirra sem skipa þessa dómnefnd ekki fást uppgefin.
„Ætlum að halda því fyrir okkur“
„Það hefur ekki verið gert áður og við ætlum að halda því fyrir okkur,“ segir Hera. Í fyrra átti Karl Olgeir lagið Lífið kviknar á ný í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Lagið var ekki valið af almenningi í símakosningu í undankeppninni en komst inn í úrslit Söngvakeppninnar fyrir tilstilli dómnefndar.
Á úrslitakvöldinu fór lagið í tveggja laga einvígi við lag Pollapönkara, Enga fordóma, þar sem þau kepptu um að verða framlag Íslendinga í Eurovision árið 2014. Þessi tvö lög voru valin í einvígið af áhorfendum með símakosningu og sérstakri dómnefnd. Í einvíginu sjálfu var aðeins tekið mið af símakosningu áhorfenda og fór það svo að Pollapönkarar stóðu uppi sem sigurvegarar.
