Handbolti

Arnór: Megum ekkert vera of góðir með okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
„Við ætluðum að bæta okkar leik og þannig er það ennþá hjá okkur. Það verður okkar aðalmarkmið áfram,“ sagði Arnór Atlason, skytta Íslands, hógvær eftir jafnteflið gegn Frakklandi á HM í kvöld.

„Við megum ekkert vera of góðir með okkur núna. Þetta er ekkert komið. Við þurfum að skila okkur í sem besta stöðu í þessum riðli og taka þessa tvo leiki sem eftir eru.“

Sóknarleikurinn var nokkuð flottur í dag en hvað var það sem Arnór var ánægðastur með?

„Við fórum vel með boltann og töpum honum ekkert í neina vitleysu. Við náum að klára sóknirnar með skotunum sem við viljum fá. Þetta var bara jákvætt. Maður er bara svekktur og kátur með þetta stig,“ sagði Arnór sem fer nú að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Tékklandi.

„Eftir leik er strax orðið fyrir leik. Maður þarf að fara að gera sig kláran í hörkuleik. Hann er mikilvægur upp á framhaldið. Þetta var jákvætt í dag og hjálpar okkur að halda áfram að þróa okkar leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×