Handbolti

Guðjón Valur: Verðum ekki heimsmeistarar í einum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Vísir/Eva Björk
„Við leggjum áherslu á að vaxa. Eins og ég hef áður sagt þá höfum við lent í því að vinna riðla á stórmóti en standa eftir með tómar hendur,“ sagði fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson eftir jafnftefli Íslands og Frakklands á HM í handbolta í gær.

Ísland fékk tækifæri til að vinna leikinn í gær en Thierry Omeyer varði þvingað skot Arons Pálmarssonar á lokasekúndunum. Leikurinn hafði verið jafn og spennandi allan leikinn og frammistaða Íslands sú langbesta í keppninni til þessa.

Það síðastnefnda gladdi Guðjón Val fyrst og fremst. „Auðvitað vill maður vinna alla leiki og vera í efsta sæti riðilsins en við verðum ekki heimsmeistarar í einum leik.“

„Við þurfum að bæta okkur og geta átt ákveðin öryggisnet sem hægt er að leita í ef illa gengur. Við þurfum að vera með hluti í sóknarleiknum sem við vitum að gengur vel ef vörn og markvarsla er stöðug.“

„Allt þetta þarf að vera til staðar í úrslitakeppninni og þangað ætlum við okkur - í 16-liða úrslitin.“

Ísland steinlá fyrir Svíþjóð í fyrsta leik sínum á mótinu en vann svo sigur á Alsír eftir erfiða byrjun í þeim leik. „Við grófum okkur ákveðna gryfju gegn Svíum og það var ekki auðvelt að koma okkur upp úr henni eins og sást gegn Alsír.“

„En mér finnst að við séum á réttri leið. Það breytir því þó ekki að næsti leikur byrjar í stöðunni 0-0. Þá er um að gera að koma okkur á eins góðan stað og við getum fyrir 16-liða úrslitin og þá fyrst byrjar mótið.“

Ísland mætir Tékklandi í Al Sadd hölinni á morgun. Tékkar eru enn stigalausir í riðlinum og þurfa að vinna leikinn til að halda í vonina um sæti í 16-liða úrslitunum.


Tengdar fréttir

Strákarnir sendu skýr skilaboð til hinna liðanna

Strákarnir okkar náðu loksins að sýna sitt rétta andlit á HM í Katar en Ísland var hársbreidd frá því að landa sigri gegn Evrópumeisturum Frakka. "Skref, en bara eitt skref, í rétta átt,“ segir landsliðsþjálfarinn eftir leik.

Snorri Steinn: Við vorum flottir

Snorri Steinn Guðjónsson var ánægður með leik íslenska landsliðsins gegn því franska í Doha í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×