Handbolti

Spánverjar fyrstir til að vinna gestgjafana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julen Aguinagalde var öflugur á lokakaflanum.
Julen Aguinagalde var öflugur á lokakaflanum. Vísir/AFP
Heimsmeistarar Spánverja eru áfram með fullt á HM í handbolta í Katar eftir þriggja marka sigur á gestgjöfunum frá Katar, 28-25, í toppslag í A-riðli í dag.

Spánverjar voru þremur mörkum undir þegar tuttugu mínútur voru eftir en tryggðu sér sigurinn með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins og fimm af síðustu sex. Línumaðurinn Julen Aguinagalde skoraði tveimur mörkum meira (4-2) en allt Katarliðið á síðustu sex mínútum leiksins.

Spænska liðið hefur átta stig af átta mögulegum en mætir Slóveníu í lokaleiknum þar sem efsta sæti riðilsins er í boði.

Spánverjar komust í 3-1 og 5-2 í upphafi leiks en Katarmenn léku mjög vel það sem eftir var hálfleiksins og voru 10-8 yfir í hálfleik eftir að þeir skoruðu fjögur síðustu mörk hálfleiksins.

Lið Katar náði í fjórgang þriggja marka forystu í upphafi seinni hálfleiks, síðast 17-14 þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Spænska liðið vann hinsvegar síðustu tuttugu mínútur leiksins 14-8 og tryggði sér fjórða sigur sinn í röð á heimsmeistaramótinu. Staðan var 25-25 þegar þrjár mínútur voru eftir þrjú síðustu mörk leiksins voru spænsk.

Valero Rivera skoraði sjö mörk fyrir Spán og Víctor Tomás var með sex mörk. Línumaðurinn Julen Aguinagalde skoraði aftur á móti öll fjögur mörk sín á síðustu sex mínútum leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×