Staðan er einföld fyrir íslenska landsliðið á HM í handbolta. Ísland þarf að vinna Egyptaland á morgun til að komast áfram í 16-liða úrslitin eða ná betri úrslitum en Tékkland sem mætir Alsír í lokaumferðinni.
Ísland er nú í fjórða sæti með þrjú stig - tveimur á eftir Egyptum í þriðja sætinu og einu á undan Tékkum sem eru í því fimmta. Fjögur efstu liðin komast áfram í 16-liða úrslitin.
Ísland og Egyptaland verða því jöfn að stigum með íslenskum sigri á morgun. Strákarnir myndu þá hafna í þriðja sæti sæti C-riðils á betri árangri í innbyrðisviðureign liðanna og mæta liðinu sem hafnar í öðru sæti D-riðils.
Tapi strákarnir eða geri jafntefli verða þeir að treysta á að Tékklandi nái verri úrslitum gegn Alsír á morgun. Tékkar þykja sigurstranglegri aðilinn í þeim leik enda hafa Alsíringar tapað öllum leikjum sínum til þessa í riðlinum.
Semsagt - tékkneskur sigur gegn Alsír þýðir að aðeins sigur Íslands á Egyptalandi dugir til að koma strákunum í 16-liða úrslit og forða strákunum frá því að spila um hinn svokallaða forestabikar - þar sem spilað er um átta neðstu sæti heimsmeistarakeppninnar.
Sjá einnig: Gæti endað illa að þurfa að mæta Egyptum í úrslitaleik Leikur Íslands og Egyptalands hefst klukkan 16.00 í Al Sadd á morgun. Tveimur tímum síðar mætast Alsíringar og Tékkar í Duhail og því ljóst að Tékkar munu vita fyrir sinn leik hvort þeir eigi einhvern möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslitin.
Sem fyrr segir mun Ísland mæta liðinu sem hafnar í öðru sæti D-riðils ef þeir vinna Egypta og hafna í þriðja sæti síns riðils. Nánast öruggt er að Þýskaland vinni Sádí-Arabíu á morgun og hafni þar með í efsta sæti D-riðils. Danmörk og Pólland, sem eru jöfn að stigum í 2.-3. sæti, mætast svo í hreinum úrslitaleik um annað sætið en jafntefli mun duga lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar til að tryggja annað sæti riðilsins.
Danir virðast loksins komnir almennilega í gang á HM eftir sannfærandi frammistöðu gegn Rússlandi í gær og fáir sem spá dönsku tapi gegn Pólverjum á morgun.