Sport

Dans dans dans parið andstæðingar í fyrsta sinn á Reykjavíkurleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dansararnir Hanna Rún Óladóttir og Sigurður Þór Sigurðsson.
Dansararnir Hanna Rún Óladóttir og Sigurður Þór Sigurðsson. Vísir/Anton
Dansararnir Hanna Rún Óladóttir og Sigurður Þór Sigurðsson sem margir muna eftir úr Dans dans dans þáttunum fyrir nokkrum árum hættu að dansa saman í lok árs 2012.

Á Reykjavíkurleikunum um helgina mætast þau í fyrsta sinn sem andstæðingar á dansgólfinu. Hanna Rún með Nikita Bazev frá Rússlandi en Sigurður Þór með Annalisa Zoanetti frá Ástralíu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.

Það verður nóg að taka fyrir dansáhugafólk í Laugardalshöllinni um helgina en samhliða RIG-dansmótinu fer fram í bikarmót í standard dönsum og Íslandsmeistaramót í latín dönsum. Keppni hefst klukkan 11.00 báða dagana en húsið opnar 9.30  á bæði laugar- og sunnudag.

Pörin í efstu tveimur sætunum í Íslandsmeistaramótinu tryggja sér rétt til þess að keppa á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Austurríki í haust.Tuttugu pör taka þátt í alþjóðlegu latin keppninni, átján íslensk, eitt franskt og eitt ástralskt.

Hanna Rún Óladóttir og Nikita Bazev slógu eftirminnilega í gegn á Reykjavíkurleikunum 2013 sem var þeirra fyrsta dansmót saman. Þau unnu alla dansana sem þau kepptu í sem þótti athyglisvert því þau voru ný byrjuð að dansa saman. Hanna Rún Óladóttir og Nikita Bazev eru nýbúin að skipta yfir í HK.

Sigurður Þór Sigurðsson og Annalisa Zoanetti hafa einu sinni áður dansað saman á Íslandi og verður spennandi að sjá hvernig þeim vegnar á mótinu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×