Handbolti

Arnór Atlason: Einum leik frá átta liða úrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Katar skrifar
„Þetta er frábært á eftir allt sem á undan er gengið, fyrir mót og núna. Það er frábært að vera kominn áfram miðað við hver staðan var orðin,“ sagði Arnór Atlason eftir sigurinn á Egyptalandi í dag.

„Þetta var enginn smá leikur og smá lið sem við vorum að mæta í dag. Að spila á móti Egyptum hérna er ekkert grín. Þvílík stemning og þvílík læti.

„Við erum mjög ánægðir með að vera komnir áfram en við erum ekki hættir.

„Mér fannst við standa nokkuð vel í vörninni fyrir utan fyrstu mínúturnar þar sem þeir skora tvö, þrjú auðveld mörk í byrjun. Svo spiluðum við nokkuð góða vörn lungan úr leiknum og Bjöggi (Björgvin Páll Gústavsson) varði frábærlega.

„Við setjum nokkur auðveld mörk líka úr hraðaupphlaupum sem okkur hefur vantað. Við erum mjög kátir með þetta.

„Við vorum duglegir að vinna fyrir hvern annan og koma á bak við hvern annan í klippingum og ekki að drepa boltann heldur halda honum gangandi.

„Þetta var mjög erfið vörn sem við vorum að spila á móti, mjög sterkir leikmenn,“ sagði Arnór sem er að vonum ánægður með að vera kominn áfram og segir liðið ekki vera hætt.

Það kom mörgum á óvart að aðal markvörður Egyptalands byrjaði ekki leikinn en hann stóð í markinu allan seinni hálfleikinn.

„Ég var búinn að skoða vídeó og þá voru þeir að skipta þessu eitthvað á milli en hinn átti auðvitað stórleik í síðasta leik, aðal markvörðurinn. Maður var búinn að búa sig undir báða.

„Alla leið, alla leið, alla leið, annars höfum við ekkert að gera með að mæta í þennan leik. Nú erum við einum leik frá þessum átta liða úrslitum sem er svakalega stórt,“ sagði Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×