Handbolti

Alexander: Pressan er öll á Gumma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander fagnar með Guðjóni Val Sigurðssyni í kvöld.
Alexander fagnar með Guðjóni Val Sigurðssyni í kvöld. Vísir/Eva Björk
Alexander Petersson segir að það verði gaman að kljást við Guðmund Guðmundsson og danska landsliðið í 16-liða úrslitum HM í handbolta.

Þetta varð ljóst í kvöld en strákarnir unnu fyrr í dag frábæran sigur á Egyptalandi og tryggðu sér þar með þriðja sæti síns riðils. Danir unnu svo Pólverja í sínum leik og þar með var ljóst að Ísland mætir lærisveinum Guðmundar á mánudag.

„Síðustu 24 klukkutímar eða svo hafa verið mjög erfiðir,“ sagði Alexander í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld. „Við þurftum að hafa einbeitinguna í lagi en við vorum heppnir með að Egyptarnir byrjuðu þennan leik ekki af fullum krafti.“

„Þessi leikur skipti þá greinilega ekki öllu máli - hvort þeir myndu mæta Danmörku eða Þýskalandi í 16-liða úrslitunum. En við spiluðum mjög vel í kvöld - unnum saman sem lið ólíkt katastrófunni gegn Tékklandi.“

„Við héldum boltanum vel og sóknartaktíkin gekk ágætlega upp. Sá eini sem mátti skjóta að utan var ég og það mun ganga betur næst hjá mér,“ sagði Alexander og hló.

„Við náðum að halda jafnvægi í sóknarleiknum og leystum vel út í horn. Það var gott að fá Gaua til baka - alvöru Gaua. Við höfðum saknað hans.“

„Þetta var barátta og allir lögðu allt sitt í leikinn frá fyrstu mínútu. Það var gaman að spila svona leik.“

Það er nú ljóst að Ísland mætir Danmörku í 16-liða úrslitum keppninnar en þar hittir strákarnir fyrir sinn gamla þjálfara - Guðmund Guðmundsson.

„Pressan er öll á honum. Markmið hans er að komast að minnsta kosti í undanúrslit. Við viljum spila bara góðan handbolta og reyna að komast áfram. Það er gaman að vera í þessari stöðu.“


Tengdar fréttir

Einkunnir Gaupa: Guðjón Valur í heimsklassa

Íslenska landsliðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum á HM í Katar með þriggja marka sigri, 28-25, á Egyptalandi í dag. Íslensku strákarnir sýndu styrk og rifu sig upp eftir hörmulegan leik gegn Tékklandi. Ísland mætir annað hvort Danmörku eða Póllandi í 16-liða úrslitunum.

Snorri Steinn: Getum strítt bæði Dönum og Pólverjum

"Mér fannst leikurinn þróast eins og ég átti von á. Það tók smá tíma að brjóta þá niður. Þeir eru erfiðir, spila 3-2-1 og eru hrikalega þéttir og það tók okkur smá tíma að lesa það. Svo fundum við góðar lausnir á því,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson leikstjórnandi Íslands eftir sigurinn á Egyptum í dag.

Arnór Atlason: Einum leik frá átta liða úrslitum

„Þetta er frábært á eftir allt sem á undan er gengið, fyrir mót og núna. Það er frábært að vera kominn áfram miðað við hver staðan var orðin,“ sagði Arnór Atlason eftir sigurinn á Egyptalandi í dag.

Vignir: Þetta var fínt ekki frábært

„Já bíddu fyrir þér. Manni líður töluvert betur í dag heldur en fyrir tveimur dögum,“ sagði glaðbeittur Vignir Svavarsson eftir sigurinn á Egyptalandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×