Innlent

Reynt að svindla á notendum Apple

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
„Enn og aftur berast okkur tilkynningar um að verið sé að reyna að gabba fólk á netinu,“ skrifaði Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á Facebook síðu sína í gær. Þá hafði lögreglunni borist tilkynningar um að Apple notendur hafi fengið skilaboð um kaup á iTunes, tónlistarveitu Apple.

Hafi þeir ekki átt í slíkum viðskiptum er þeim sagt að smella á tengil til að laga það.

„Glæpurinn er að tengilinn vísar á falska síðu sem þó lítur rétt út. Þar er fólk beðið að skrá sig og ef það gerir það þá fá þjófarnir þær upplýsingar og geta nýtt sér til að stela.“

Lögreglan biður fólk um að vera á varðbergi gagnvart slíkum sendingum og ganga úr skugga um að ekki sé um gabb að ræða. Vakni einhverjar grunsemdir sé best að senda fyrirspurn um málið til viðkomandi aðila.

Þá sé einföld varnaraðgerð að forðast einfaldlega alla tengla sem berast í pósti og að fara á heimasíðu viðkomandi fyrirtækis.

„Verið á varðbergi, verið meðvituð um hættuna og ræðið þetta meðal fjölskyldu og vina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×