Guðmundur Guðmundsson sagði á blaðamannafundi sínum á Hilton-hótelinu í Doha í morgun að hann væri virkilega ánægður með farmmistöðu sinna manna í danska landsliðinu gegn því íslenska í gær.
Danmörk vann Ísland, 30-25, og komst þar með áfram í 8-liða úrslit á HM í handbolta í Katar. Danir mæta heimsmeisturum Spánverja í 8-liða úrslitunum.
„Við spiluðum virkilega vel í gær. Ég var virkilega ánægður með vörnina. Við breyttum henni aðeins, spiluðum þéttar á sóknarleik Íslands og það gekk mjög vel,“ sagði Guðmundur.
„Við spiluðum líka vel í sókninni. Við hefðum vissulega getið unnið stærra en þetta var í lagi hjá okkur og góður leikur af okkar hálfu.“
„Næsti andstæðingur er heimsmeistari og er virkilega sterkur. Það er klárt. Spánn er með frábært lið sem spilar þétta vörn og er með nokkra stóra leikmenn. Við þurfum að vinna bug á því og reyna nokkrar útfærslur á okkar sóknarleik til að komast í gegnum spænsku vörnina.“
Guðmundur var spurður hver helsti munurinn væri á spænska liðinu og því íslenska. „Spánn spilar öflugri varnarleik en Ísland og er með breiðari hóp. Þá hafa þeir ekki spilað jafn erfiða leiki í keppninni til þessa og liðin í riðlum okkar og Íslands.“
„Það skiptir okkur öllu máli að spila eins góða vörn og við getum. Við fengum til að mynda of margar brottvísanir í gær. Þær voru fimm og það finnst mér of mikið. Það getur ráðið úrslitum í leik gegn Spáni.“
Skondin uppákoma varð á fundinum því ljósin í herberginu slokknuðu á miðjum fundi. Guðmundur brosti út í annað en hélt áfram að svara spurningum blaðamanna.
Guðmundur: Hefðum getað unnið stærra

Tengdar fréttir

Guðmundur: Ekki erfitt fyrir mig að mæta Íslandi
Strákarnir okkar mæta fyrrverandi lærimeistara sínum í 16 liða úrslitum á HM í kvöld.

Alexander: Danir geta orðið heimsmeistarar
Alexander Petterson var bestur í íslenska liðinu í kvöld þegar liðið tapaði á móti Dönum í sextán liða úrslitunum á HM í Katar.

Guðmundur: Þykir vænt um drengina í íslenska liðinu
Kvöldið var afar sérstakt fyrir Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara Danmerkur. Þá mætti hann drengjum sem hann þjálfaði í mörg ár og vann til tveggja verðlauna með á stórmótum.