Handbolti

Guardiola: Guðmundur nær betri árangri næst

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Vísir/Eva Björk
Varnarmaðurinn Gedeón Guardiola átti góðan leik í spænska liðinu í kvöld er Spánverjar höfðu betur gegn Dönum, 25-24, í 8-liða úrslitum HM í handbolta í Katar.

Guardiola spilar hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen en Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska liðsins, þjálfaði það þar til í sumar.

„Ég held að það henti Guðmundi betur að þjálfa danska landsliðið en Rhein-Neckar Löwen,“ sagði Guardiola við Vísi eftir leikinn í kvöld. „Hann er fær þjálfari og hefur skýra hugmynd um hvernig á að spila vörn og sókn.“

„Ég held að Danir muni spila enn betur á næsta móti og fara enn lengra með smá heppni,“ bætti hann við.

Spænska vörnin spilaði frábærlega í kvöld og Guardiola segir að það hafi verið lykilatriði að loka á vinstri vænginn.

„Við vissum að við þurftum að hafa sérstakar gætur á Mikkel Hansen - líka Mads Mensah Larsen. Þetta eru tvær afar öflugar skyttur,“ sagði hann.

„Mikkel Hansen er sérstakur leikmaður og Victor Tomas fékk það hlutverk að gæta hans. Ég og Viran Morros hjálpuðum svo til með blokkeringum en honum tókst samt að skora fullt af mörkum. Hann er frábær leikmaður.“

„Við börðumst mikið og ég tel að við höfum farið langt á henni í kvöld.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×