Sport

Sádí-Arabar vilja halda kynjaskipta Ólympíuleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarah Attar keppti fyrir Sádí-Arabíu á Ólympíuleikunum í London 2012.
Sarah Attar keppti fyrir Sádí-Arabíu á Ólympíuleikunum í London 2012. Vísir/Getty
Sádí-Arabía vill halda Ólympíuleikana í framtíðinni en til þess að svo verði þarf að gera grundvallarbreytingar á uppsetningu leikanna.

Sádí-Arabía vill halda Ólympíuleikana með nágrannaríkinu Barein en aðeins ef að leikirnir verði kynjaskiptir.

Tillaga Sádí-Arabíu er að karlarnir munu keppa í þeirra landi en konurnar í Barein.

Kvenmenn hafa lítil réttindi í Sádí-Arabíu. Konur mega sem dæmi ekki koma inn á íþróttavelli í landinu og aðeins drengir fá íþróttakennslu í skólum.

„Það er erfitt að sætta sig við það að konur fái að keppa í íþróttum ekki síst í sundi," sagði Fahad bin Jalawi Al Saud prins í samtali við frönsku vefsíðuna Francs Jeux þar sem hann opinberaði vilja þjóðar sinnar til að halda Ólympíuleikana undir fyrrnefndum forsendum.

Það er einkum klæðnaður kvenna í íþróttum sem fer mest fyrir brjóstið á Sádí-Aröbum.

Næstu Ólympíuleikar fara fram í Ríó í Brasilíu á næsta ári og svo í Tókýó í Japan árið 2020. Það verður ákveðið árið 2017 hvar sumarleikarnir munu fara fram árið 2024.

Það verður þó að teljast afar ólíklegt að Sádí-Arabar fái að halda Ólympíuleikana með þessu fyrirkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×