Handbolti

Sænska tröllið meiddist á fyrstu æfingunni í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreas Nilsson.
Andreas Nilsson. Vísir/AFP
Svíar verða fyrstu mótherjar íslenska handboltalandsliðsins á Heimsmeistaramótinu í handbolta í Katar en þjóðirnar mætast í fyrstu umferð á föstudaginn. Mótið byrjar þó ekki vel fyrir Svía.

Línumaðurinn Andreas Nilsson meiddist nefnilega á fyrstu æfingu sænska landsliðsins í Doha í dag.  Nilsson, sem er 196 sentímetrar á hæð og tæplega 120 kíló féll í gólfið og meiddist á fæti þegar hann freistaði þess að verja skot frá Kim Andersson.  

Læknir sænska landsliðsins segir í samtali við Aftonbladet að ákveðið hafi verið að fara með leikmanninn á sjúkrahús í myndatöku.

Nilsson gékk i sumar í raðir ungverska liðsins Veszprem eftir að hafa spilað tvö ár með Hamborg. Hann spilar því væntanlega með Aroni Pálmarssyni á næsta tímabili. Andreas Nilsson sem er 24 ára gamall er jafngamall og Aron.

Andreas Nilsson á að baki 66 leiki með sænska landsliðinu og hefur skorað í þeim 158 mörk. Hann var bæði með sænska landsliðinu á ÓL 2012 og EM 2014.

Nilsson nýtti meðal annars öll 23 skotin sín á EM í Danmörku fyrir ári síðan og það væri mikið áfall fyrir sænska liðið hefur hann getur ekki verið með á móti Íslendingum á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×