Lífið

Jóhann tilnefndur til Óskarsverðlauna

Jóhann var tilnefndur!
Jóhann var tilnefndur!
Jóhann Jóhannsson er tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. Hann er fimmti Íslendingurinn sem er tilnefndur.

Jóhann er tilnefndur fyrir bestu frumsömdu tónlistina. Hann samdi tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything, sem fjallar um námsár eðlisfræðingsins Stephens Hawking við Cambridge-háskóla og samband Hawkings við fyrrverandi eiginkonu sína, Jane Wilde.

Jóhann vann til Golden Globe verðlaunanna fyrr í vikunni fyrir þátt sinn í kvikmyndinni.

Jóhann er margslunginn listamaður og á að baki fjölbreyttan feril hér heima. Hann var meðal annars gítar- og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar HAM, vann um tíma með söngkonunni Emilíönu Torrini, var í hljómsveitinni Apparat Organ Quartet og útsetti fyrir tónlistarmanninn Pál Óskar Hjálmtýsson.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Friðrik Þór Friðriksson var tilnefndur til Óskarsverðlaunanna árið 1992 fyrir Börn náttúrunnar í flokknum besta erlenda myndin. Rúnar Rúnarsson var tilnefndur fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn, árið 2006. Björk Guðmundsdóttir var tilnefnd fyrir lagið I've seen it all úr Myrkradansaranum árið 2001. Sjón Sigurðsson og Lars Von Trier voru meðhöfundar að laginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.