Hugmyndir eru uppi um að gera afturdekkin á Formúlu 1 bílum breiðari. Pirelli segist vera reiðubúið að framleiða breiðari dekk.
Samkvæmt Paul Hembrey er Pirelli tilbúið að framleiða breiðari dekk til að auka sjónarspilið sem fylgir Formúlu 1.
„Breiðari dekk? Það heillar. Ég sé fyrir mér svipað útlit og á Formúlubílum frá áttunda áratug síðustu aldar, ekki svo ýkt að það minni á kvartmílubíl, en þannig að þú hugsir vá þegar þú sérð bílinn,“ sagði Hembrey.
Einnig eru hugmyndir um að auka vélarafl og niðurtog. Þessar hugmyndir koma frá FIA (alþjóða akstursíþróttasambandið) og skipulagshóp Formúlu 1.
FIA vill fá breytinguna í gegn fyrir tímabilið 2016 en Hembrey efast um að það sé skynsamlegur kostur. Hann bendir á að að þurfi að prófa og þróa dekkin talsvert.
„Það er líka rökréttur tími því samningurin okkar rennur út við lok tímabilsins 2016. Ef við endurnýjum væri það gott tækifæri til að koma fram með breytinguna líka. Hin fullkomna breidd á afturdekkjum er um 400 millimetrar en þau eru 325mm núna, en framdekkin myndu áfram vera 245mm,“ bætti Hembrey við.
„Ég vil endilega gera dekkin breiðari en 400mm - því það hljómar betur. Sérstaklega ef vélarnar verða 1000 hestöfl - þá er þetta góð blanda. Stórar tölur eru nauðsynlegur hluti af Formúlu 1,“ sagði Hembrey að lokum.
