Handbolti

Björgvin Páll: Áttum skilið að fá stól í andlitið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Björgvin Páll varði 14 skot í íslenska markinu í gær.
Björgvin Páll varði 14 skot í íslenska markinu í gær. vísir/eva björk
„Sumir eiga skilið að fá high five. Í andlitið. Með stól.“

Þetta stóð í færslu sem Björgvin Páll Gústavsson setti á Twitter-síðu sína í gær og lék Vísi forvitni á að vita hvað hafi búið þar að baki. Ísland tapaði í gær fyrir Svíþjóð, 24-16, í sínum fyrsta leik á HM í Katar.

„Bara pirringur út í sjálfan mig og okkur sem liðsheild. Ég held að ég hafi náð að orða þetta ágætlega. Við þurftum allir að fá high five í gær og hefðum kannski átt stólinn frekar skilið.“

Hann segir að nóttin hafi verið betri en hann hafi átt von á fyrirfram. „Ég náði að kryfja þetta frekar fljótt í hausnum og ég sofnaði ljúft og vært eftir að hafa horft á hina strákana okkar í fótboltanum í gær.“

„Ég var lengi að sofna en þó fljótari en venjulega,“ bætti hann við en meðal þess sem hann segir að hafi farið úrskeðis í gær voru einstaklingsmistök. Til marks um það hafi Ísland lítið sem ekkert nýtt hraðaupphlaupin sín í gær.

„Mér fannst leikáætlunin ganga vel upp í gær. Við fengum mikið af færum og erum að skila okkar vinnu ágætlega. En þessi einstaklingsmistök sem við gerum eru slæm og bara hollt fyrir liðið að lenda í því. Nú þurfum við að taka ábyrgð á sjálfum okkur og næsta manni til að það komi ekki fyrir aftur.“

„Við þurfum að taka ábyrgðina allir saman og ég held að einstaklingurinn geti lært af þessum leik í gær.“

Strákarnir mæta Alsíringum strax á morgun og því lítill tími til að svekkja sig á tapi gærdagsins. „Við getum lært mikið af leiknum í gær og notað pirringinn eftir tapið í leiknum gegn Alsír. Við viljum gera betur. Leikurinn skiptir miklu upp á 16-liða úrslitin að gera og skyldusigur ef við ætlum okkur að fara eitthvað lengra í þessu móti.“

„Við tókum eitt skref aftur á bak í gær en nú þurfum við að núllstilla okkur og mæta klárir inn í næsta leik.“

Alsíringar spila gjörólíkan handbolta miðað við Svía eins og Björgvin Páll bendir á. „Þeir eru svolítið villtir, bæði í vörn og sókn. Þeir gera öðruvísi hluti og áskorun fyrir okkur að halda í við þá. Við þurfum að vera klókir til þess og mæta vel undirbúnir til leiks.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×