Handbolti

Dönum er brugðið en Guðmundur er rétt að byrja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Eva Björk
Ein allra óvæntustu úrslitin á HM til þessa var jafntefli Danmerkur gegn Argentínu í D-riðli í gær. Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Dana og stýrði liðinu í gær í sínum fyrsta stórmótsleik.

Thomas Kristensen starfar á TV2 og hefur fylgt danska landsliðinu eftir á stórmót í langan tíma.

„Þetta kom öllum á óvart enda hefur Danmörk aldrei misst stig í leik gegn Argentínu á stórmóti. Einhverjir hafa vaknað í morgun og velt því fyrir sér hvort þetta hafi gerst í alvörunni en þetta er satt,“ sagði hann.

Kristensen telur þó að það sé þolinmæði fyrir því að gefa Guðmundi tíma með liðið enda rétt svo nýbyrjaður í sínu starfi. „Ég er 100 prósent viss um að þetta er bara byrjunin á löngu ferðalagi hans með danska landsliðinu. Það hendir öll lið á öllum stórmótum að spila illa í 1-2 leikjum.“

„Ég vona því að Danir séu búnir að taka út sinn slæma leik en ég held að það hafi komið leikmönnunum - og jafnvel Guðmundi líka - á óvart hversu ákafir Argentínumennirnir voru í sínum leik.“

Kristensen hefur ekki orðið var við miklar umræður eða háværar kröfur þess efnis að þjálfari danska landsliðsins eigi að vera danskur. Þvert á móti telur hann að það hafi verið stórgóð ákvörðun að ráða Guðmund.

„Handboltinn á sér langa og ríka sögu í Danmörku en það yrði erfitt fyrir hvern sem er að fylgja í fótspor Ulrik Wilbæk.“

„Ég tel að það sé gott að leita út fyrir landið með reglulegu millibili. Við vorum með sænskan þjálfara á miðjum tíunda áratugnum og kannski verður næsti þjálfari danskur.“

Hann segist enn vongóður um vonir danska landsliðsins sem stefnir að minnsta kosti í undanúrslit á mótinu. „Ég er 100 prósent viss um að við vinnum Sádí-Arabíu (á morgun) en það verður svo afar áhugavert að sjá Dani spila gegn Pólverjum, Rússum og Þjóðverjum.“

„En við skulum vera hreinskilin. Enginn í Danmörku bjóst við að Danmörk myndi tapa stigi gegn Argentínu. Okkur er því nokkuð brugðið.“


Tengdar fréttir

Danir náðu bara jafntefli á móti Argentínu

Guðmundur Guðmundsson tókst ekki að vinna sinn fyrsta leik á stórmóti sem þjálfari danska landsliðsins í handbolta en liðið náði bara 24-24 jafntefli á móti Argentínu í kvöld.

Guðmundur: Og så videre

Áhugavert viðtal við Guðmund Guðmundsson um pressuna sem fylgir því að þjálfa eitt besta landslið í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×