Alexander Petersson átti eins og svo margir aðrir slæman dag þegar Ísland steinlá fyrir Svíum á HM í handbolta í gær, 24-16. Hann segir að nóttin eftir leik hafi verið erfið.
„Ég sofnaði á milli þrjú og hálf fjögur. Þetta var erfitt en núna er nýr dagur og nýr leikur fram undan á morgun,“ sagði hann við Vísi á hóteli íslenska liðsins á Doha í dag. „Við vorum að koma af fundi þar sem við fórum yfir leikinn á myndbandi og það var ekki gaman að horfa á þetta. En núna förum við í mat og gleymum þessum leik.“
Alexander og Aron Pálmarsson mynda eitt sterkasta skyttupar þessa heimsmeistaramóts en þeir voru báðir fjarri sínu besta í gær. „Það vantaði upp á tímasetningu á milli okkar í gær. Ég fékk boltann aldrei á ferðinni og gaf hann heldur ekki frá mér á réttum tíma heldur. Ég fór allt of mikið inn á miðjuna.“
„Svo verður þetta eins og snjóbolti fyrir markverði þegar þeir byrja að verja og þannig var það hjá [Mattias] Andersson í gær. Þeir verða bara betri og betri og sjálfstraustið eykst. Því fór sem fór.“
Ísland mætir Alsír á morgun og á Alexander von á allt öðruvísi leik. „Þeir eru sterkir og fljótir og við verðum að geta stoppað þannig menn líka. En þá verður sóknin líka að vera betri hjá okkur en í gær.“
„Við fáum vonandi meira pláss fyrir línumenn á morgun og fleiri tækifæri einn á móti einum - fá bara boltann og stimpla. Stundum er þetta svo einfalt.“
