Handbolti

Katar, Króatía og Makedónía með fullt hús á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alla skorar fyrir Katar gegn Chile.
Alla skorar fyrir Katar gegn Chile. vísir/afp
Katarska landsliðið í handbolta byrjar vel á HM á heimavelli, en Katarmenn lögðu Chile að velli í dag með 27 mörkum gegn 20. Staðan í hálfleik var 15-9, Katar í vil.

Zarko Markovic fór mikinn í liði Katar og skoraði 11 mörk, en Marco Antonio Oneto og Rodrigo Salinas skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Chile sem hefur tapað báðum leikjum sínum í mótinu til þessa.

Í B-riðli mættust Króatía og Túnis annars vegar og Íran og Makedónía hins vegar.

Króatar áttu í basli með Túnisa, en unnu að lokum þriggja marka sigur, 28-25.

Ivan Cupic var eins og svo oft áður markahæstur í liði Króata með átta mörk, en annar hornamaður, Manuel Strlek kom næstur með sjö mörk.

Amine Bannour var öflugur í liði Túnis með níu mörk, en Mosbah Sanai skoraði sjö.

Kyril Lazarov skoraði 11 mörk þegar Makedónía vann tveggja marka sigur á Íran, 31-33. Makedónar leiddu einnig með tveimur mörkum í hálfleik, 17-19.

Sajad Nadri var markahæstur í liði Írans með níu mörk, en Íranir hafa tapað báðum leikjum sínum. Makedónar hafa hins vegar unnið báða sína leiki, líkt og Króatar.

Fyrr í dag unnu Spánverjar Brasilíu í A-riðli og Slóvenar lögðu Hvít-Rússa að velli í B-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×