Handbolti

Sverre: Dómgæslan eins og konfektkassinn í Forrest Gump

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Sverre brá á leik með ljósmyndara í gær.
Sverre brá á leik með ljósmyndara í gær. Vísir/Eva Björk
Sverre Jakobsson segir að þrátt fyrir að varnarleikurinn gegn Svíum á föstudag hafi verið góður sé heilmargt enn hægt að bæta. Ísland tapaði með átta marka mun fyrir Svíum, 24-16, og mætir Alsír á HM í Katar í dag.

„Ef maður tapar leik þá er maður aldrei sáttur. Ef það eru vandamál á vellinum þarf allt að verða betra, eins og varnarleikurinn í þessu tilfelli. Svíarnir héldu okkur í sextán mörkum. Af hverju gerðum við ekki það sama? Maður var því ekkert ánægður.“

Ísland fékk sex brottvísanir í leiknum og Sverre segir að það megi fækka þeim í næstu leikjum sínum í keppninni.

„Það er dýrt að þurfa að vera svona mikið út af. Við þurfum að taka þessu alvarlega. Það eru svo viss atriði í varnarleiknum sem við getum gert enn betur en gegn Svíþjóð. Við viljum gera betur.“

Dómarar hafa lagt stranga línu í brottvísunum í keppninni allri og Sverre segir að það sé erfitt að eiga við þetta í fyrstu leikjunum. „Þú veist aldrei hvað þú færð - svona eins og Forrest Gump og konfektkassinn. Það er misjafnt á milli daga og dómara hvernig áherslan er og maður þarf að vera fljótur að átta sig á því í leikjunum.“

„Mér finnst þetta oft vera dúkkulísuleikur en stundum fær þetta að vera alvöru leikur. Þetta er sérstaklega áberandi á HM og það er áskorun að halda rónni. Maður má ekki eyða of mikilli orku í það og einbeita sér fyrst og fremst að eigin leik.“

„En dómararnir eru bara hluti af leiknum og komast ekki frá leiknum án mistaka, ekki frekar en við hinir.“


Tengdar fréttir

Íslensk katastrófa í Katar

Strákarnir okkar sáu aldrei til sólar í eyðimerkurríkinu Katar við Persaflóann. Ísland steinlá fyrir Svíþjóð, 24-16, og átti sér vart viðreisnar von í sínum fyrsta leik á HM í handbolta. Ísland mætir Alsír á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×