„Maður tekur stöðugt eftir því hversu áhuginn er mikill hjá Íslendingum,“ segir Gunnar í samtali við Vísi en hann var vitaskuld þakklátur lesendum Vísis fyrir kosninguna.
Sjá einnig: Gunnar bestur á árinu að mati lesenda Vísis
„Áhuginn er að vaxa og hann hefur gert það á miklum hraða. Mér fannst áhorf á íþróttina og áhuginn í samfélaginu fara upp á annað stig á árinu. Maður fann að fólk var farið að kynna sér íþróttina betur, hafa vit á henni og fylgjast betur - ekki bara því sem ég var að gera.“
„Það fannst mér afar skemmtilegt að sjá og tel að það sé byrjunin á einhverju stóru,“ segir Gunnar.

„Mikið af því sem ég hef séð er komið frá fólki sem þekkir ekki íþróttina og horfir á hana með óreyndum augum. Það á því til að vera fljótt að dæma enda er íþróttin harðgerð og fer fyrir brjóstið á mönnum.“
Sjá einnig: Gunnar neitar að svelta sig fyrir léttvigtina
„Það er kannski eðlilegt en menn verða engu að síður að setja tilfinningar sínar til hliðar ef tilgangurinn er að rýna í og koma fram með skoðanir sínar á opinberum vettvangi. Það er að minnsta kosti mitt álit.“
„Ég held að margt af því sem er sagt er sagt í flýti. En að sama skapi verða ummælin til þess að það er hægt að koma með góð svör á móti og mennta fólk aðeins betur í þessum fræðum. Það er jákvætt að það sé hægt að svara gagnrýninni þó svo að það sé alltaf leiðinlegt að hlusta þegar svona þvæla kemur upp.“

„Það er þó ekkert öðruvísi að keppa þar en í öðrum borgum,“ segir Gunnar. „Las Vegas er vissulega mekka fyrir íþróttina og á sér stað í hjartarótum manna sem hafa fylgst með UFC frá upphafi. En í dag eru stærstu „show-in“ ekkert í Vegas.“
Sjá einnig: 20 mest lesnu íþróttafréttir ársins á Vísi
„Auðvitað er gaman fyrir menn að koma til borgar eins og Las Vegas en fyrir íþróttamanninn skiptir það ekki öllu máli að keppa þar. Ég hef svo gaman að því að koma á nýja staði og keppa og væri líka spenntur fyrir því að fara til Japan og jafnvel Brasilíu í framtíðinni.“
Hann mun þó áfram búa á Íslandi. „Það er að minnsta kosti stefnan. Ég mun áfram fara út í æfinga- og keppnisferðir en verð áfram búsettur hér.“