Ísland vann frábæran eins marks sigur, 29-30, á Danmörku í öðrum leik liðanna á Totalkredit-æfingamótinu í kvöld en leikið var í Álaborg.
Það var allt annað að sjá sóknarleik íslenska liðsins í kvöld en í undanförnum leikjum. Aron Pálmarsson lék með liðinu á ný eftir langa fjarveru og innkoma hans hafði heldur betur góð áhrif á íslensku sóknina.
Danir byrjuðu framarlega í vörninni, en Íslendingar voru alltaf með svör á reiðum höndum og opnuðu dönsku vörnina hvað eftir annað.
Alexander Petersson var magnaður í fyrri hálfleik og skoraði sjö mörk úr jafn mörgum skotum. Auk Alexanders voru þeir Stefán Rafn Sigurmannsson og Róbert Gunnarsson vel tengdir í sóknarleiknum og skiluðu fimm mörkum hvor í leiknum.
Aron Pálmarsson skaut lítið á markið framan af leik, en var duglegur að spila samherja sína uppi og átti fjöldan allan af stoðsendingum. Aron tók oftar af skarið í seinni hálfleik og lauk leik með fjögur mörk og á annan tug stoðsendinga.
Varnarleikur íslenska liðsins var hins vegar ekki í sama gæðaflokki og sóknin í fyrri hálfleik og markvarslan var lítil sem engin.
Danir voru duglegir að keyra í bakið á íslenska liðinu og skoruðu alls 10 mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum.
Fyrri hálfleikur var hraður og skemmtilegur og aldrei munaði miklu á liðunum. Íslendingar komust þremur mörkum yfir, 7-10, um miðjan fyrri hálfleik, en Danir unnu þann mun fljótt upp.
Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks munaði aldrei meira en einu marki á liðunum, en þegar þau gengu til búningsherbergja var staðan 17-18, Íslandi í vil.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn frábærlega, skoraði fjögur fyrstu mörk hans og komst fimm mörkum yfir.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska liðsins, setti þá Michael Damgaard inn á í sóknina og hann átti mestan þátt í því að Dönum tókst að jafna í 23-23.
Sóknarleikur íslenska liðsins datt niður um miðjan seinni hálfleik þegar Snorri Steinn Guðjónsson var utan vallar, en það er áhyggjuefni hversu illa liðinu gengur í sókninni án leikstjórnandans snjalla.
Liðin héldust í hendur næstu mínútur eða þar til Ísland sleit sig örlítið frá danska liðinu á lokametrunum, þökk sé bættum sóknarleik og góðri markvörslu Arons Rafns Eðvarðssonar. Haukamaðurinn fyrrverandi varði alls 11 skot í leiknum, eða 42% þeirra skota sem hann fékk á sig.
Ísland landaði að lokum eins marks sigri, 29-30, sem er kærkominn eftir ófarirnar gegn Svíum í gær.
Ísland mætir Slóveníu í síðasta leik sínum á mótinu á morgun. Leikurinn hefst klukkan 13:45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

